Saab aftur byggður í Svíþjóð
Bílaframleiðsla hófst á ný í Saab bílaverksmiðjunni í Trollhättan í Svíþjóð í morgun, mánudaginn 2. des. eftir tveggja og hálfs árs hlé. Ein gerð er framleidd; Saab 9-3 Aero stallbakur með 220 ha. 2,0 l túrbínubensínvél. Bílarnir eru aðallega ætlaðir fyrir kínverska bílamarkaðinn fyrst um sinn, en takmarkaður fjöldi sérbúinna bíla verður seldur í Svíþjóð að því er fram kemur á heimasíðu eignarhaldsfélagsins NEVS sem nú er eigandi Saab.
NEVS er skammstöfun fyrir National Electric Vehicle Sweden. Fyrirtækið er að stærstum hluta í eigu hins sænsk-kínverska stjórnarformanns NEVS, Kai Johan Jiang sem stofnaði félagið upphaflega til þess að framleiða rafmagnsbíla. Hann sagði við sænska fjölmiðla í morgun að Saab rafbílar væru væntanlegir á nýju ári en miklu hefði skipt að koma framleiðslu í gang á nýjan leik. Það hefði tekist með sænskri tæknigetu, kunnáttu og þekkingu sem ásamt nýrri tækni og nýjum búnaði fyrir rafbíla, sem fyrirtækið hafi nú í handraðanum, sé einskonar vegabréf fyrirtækisins inn í framtíðina.
Forstjóri NEVS, Mattias Bergman, sagði í morgun að það hefði ekki verið létt verk að gangsetja bílaframleiðsluna á ný eftir tveggja og hálfs árs hlé. En nú sé aftur í boði mikill gæðabíll og öll áherslan yrði á gæðin, traustleikann og fyrsta flokks þjónustu við eigendur bílanna. Búið væri að byggja upp á ný dreifi- og þjónustunet sem eigi eftir að stækka og þróast eftir því sem fram í sækir. Framleiðslan er vissulega ekki mikil fyrst í stað því gert er ráð fyrir því að framleiða um það bil 10 bíla á viku fyrst um sinn, en bæta síðan í eftir því sem eftirspurn eykst.
Í Svíþjóð hefst sala á nýja Saab bílnum þriðjudaginn 10. desember í gegn um heimasíðu NEVS. Verðið á handskiptum bíl er 279.000 sænskar krónur (um 5 millj. ísl kr) en sá sjálfskipti er 10 þúsund krónum dýrari (um 5,3 millj. ísl. kr.).