Saab er öruggasti bíllinn

The image “http://www.fib.is/myndir/Sakerosaker.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Saab er öruggastur en Twingo fyrir ofan er óöruggastur samkvæmt slysarannsókn Folksam í Svíþjóð.
Samkvæmt nýrri rannsókn Folksam tryggingafélagsins í Svíþjóð hefur hætta á því að deyja í bílslysum minnkað gríðarlega síðustu 20 árin, eða um 90% Öruggustu bílarnir samkvæmt þessari rannsókn eru Saab 9-3 og 9-5. Þeir sem aka nýjum og nýlegum Saab bílum eru tíu sinnum öruggari um að halda lífinu ef slys verður en þeir sem aka í þeim bílum sem lélegastir eru. Samanburður Folksam á 138 bíltegundum og –gerðum leiðir þetta í ljós. Rannsóknin náði til 94.100 raunverulegra umferðaróhappa sem áttu sér stað árin 1994-2004. Í þeim slösuðust 35.400 manns.
Sá bíll sem mestar líkur eru á að slasast eða láta lífið í verði óhapp, er Renault Twingo. Þá eru hvorki meira né minna en 90% meiri líkur á að deyja í bílum af árgerðum 1980-1984 heldur en í bílum af árgerðum 2000-2004. Á sama hátt eru 25% minni líkur á að örkumlast í bílum af árgerðum 2000-2004 en í eldri bílunum. En þótt Saab bílar séu öruggastir eru margir nálægt því að vera jafn öruggir. Með þeim öruggustu eru t.d. Volvo V70 og S70, Mitsubishi Carisma, Ford Mondeo (2001) och Audi A6 (1998-2005).
Ásamt Renault Twingo eru á botninum fleiri smábílar eins og t.d. Citroën AX, Nissan Micra (1983-1992), Honda Civic (1992-1995) og Peugeot 106. „Ef allir sem fá sér nýjan bíl á árinu 2005 keyptu einungis bíla úr öruggasta flokknum myndi dauðaslysum og alvarlegum meiðslum  í umferðarslysum fækka um 30%,“ fullyrðir Anders Kullgren framkvæmdastjóri slysarannsókna hjá Folksam.
Hann segir að mjög hröð þróun undanfarin 10 ár í smíði öruggari bíla sé augljós af niðurstöðum þessarar nýju rannsóknar. Þessi þróun hafi síður en svo hægt á sér enn sem betur fer. Stöðugt bætist við nýr búnaður í bíla sem bætir öryggi fólksins í bílnum. Sá ávinningur sem þessi búnaður hafi haft og eigi eftir að hafa í framtíðinni sé alls ekki enn kominn í ljós. En sá öryggisávinningur sem nú mælist segir Kullgren einkum vera vegna þess að bílar eru betur byggðir en áður. Fólksrými þeirra er sterkara og ver fólk betur en fyrr. Jafnframt eru krumpusvæði að framan og aftan betur hönnuð. Þetta ásamt búnaði eins og bílbeltum með strekkjurum sem bregðast við höggi á bílinn, loftpúðum og loftpúðagardínum sem verja höfuð og andlit, sem og virkir hnakkapúðar, hafi stórlega minnkað áhættu gagnvart dauða og örkumlum.
Í rannsóknaniðurstöðum Folksam er fólk sérstaklega varað við því að kaupa jeppa eða jepplinga. Ástæðan sé sú að slíkir bílar auki mjög áhættu þeirra sem aka í öðrum bílum við árekstur við jeppa vegna þess að jepparnir eru hábyggðari en fólksbílarnir. Jeppar og jepplingar eru ekki algengir í Svíþjóð þótt þeim fjölgi hlutfallslega. Folksam vitnar þessvegna til bandarískra rannsókna sem sýna að sá sem ekur í fólksbíl og lendir í árekstri við jeppa er í þrisvar til fjórum sinnum meiri hættu á að deyja eða örkumlast en í árekstri við annan fólksbíl. Folksam segir að jeppar veiti fólki auk þess falska öryggiskennd vegna þess að setið er hærra í þeim. Sú kennd eigi sér þó enga forsendu því að reynslan sýni að í eins bíls slysum slasist fólk í jeppum verr en fólk í fólksbílum. Og vegna þess að jepparnir eru hærri og þar með valtari en fólksbílarnir þá velti þeir oftar en fólksbílar. „Kaupið ekki jeppa,“ er því það ráð sem Folksam gefur sænsku þjóðinni.
Smelltu hérna hér til að skoða könnun Folksam í heild.