Saab í samvinnu við Pang Da í Kína
Samkvæmt nýjustu fréttum af peningavandræðum Saab kemst bílaframleiðslan í Trollhättan aftur í gang eftir helgi, kannski á miðvikudag. Eftir að hið kínverska Hawtai hætti við að gerast meðeigandi í Saab hafa tekist samningar við annað Kínafyrirtæki sem heitir Pang Da.
Pang Da hefur hingað til eingöngu verið bílasölufyrirtæki og hið stærsta sinnar tegundar í Kína. Það rekur 1.100 bílasölur sem seldu í fyrra alls 470 þúsund nýja bíla af 83 tegundum. Samkvæmt samningi Saab og Pang Da verður stofnað nýtt fyrirtæki sem framleiðir Saab bíla fyrir Kínverska markaðinn undir nýju vörumerki. Þetta nýja fyrirtæki verður í jafnri helmingseigu Saab og Pang Da. Pang Da greiðir sinn hluta hlutafjárins út í beinhörðum peningum sem lagðir verða inn á reikninga Saab í Trollhättan í þessari viku. Þar með ætti að skapast svigrúm til að greiða 800 undirframleiðendum og öðrum þjónustuaðilum Saab það sem þeir eiga útistandandi.
Victor Muller stjórnarformaður Saab og Spyker í Hollandi kom beint frá Kína á fund með starfsmönnum Saab í samsetningarverksmiðjunni í Trollhättan þar sem hann tilkynnti þeim þetta, þakkaði þeim þolinmæðina og baðst afsökunar á óþægindum sem vandræðin hafa valdið starfsfólkinu. Nánar má lesa um fundinn á vefsíðunni Inside Saab.
Bílaverksmiðja Saab í Trollhättan hefur nú verið óvirk í mánuð. Starfsfólkið hefur flest verið heimavið þennan tíma og óvissa er um hvort það fái laun sín greidd fyrir þennan tíma, né að hve miklu leyti. Svo virðist sem kaupendur hafi ekki snúið baki við Saab í hremmingum undanfarinna vikna og mánaða því að fyrir liggja pantanir á yfir fimm þúsund bílum og afpantanir hafa verið sáralitlar að sögn sænskra fjölmiðla.