Saab til Tyrklands?
Tyrkneskt fjárfestingafélag sem heitir Brightwell Holdings vill kaupa þrotabú Saab í Svíþjóð. Talsmaður félagsins segist hafa samþykki General Motors fyrir kaupunum, en GM á fjölda tæknilegra einkaleyfa Saab auk þess sem bílaframleiðsla hjá Saab er háð því að geta fengið íhluti frá General Motors. Hluti af ástæðum þess að Saab fór á hausinn er að GM hafnaði aðkomu kínverskra og þar áður rússneskra fyrirtækja að Saab. Ástæðan var sú að GM-menn vildu ekki að tækni og þekking sem GM á í Saab, falli í „rangar“ hendur.
Stjórnamaður í tyrkneska félaginu segir við sænska fréttamiðla að áhuga fyrir kaupum á Saab sé að rekja til tveggja meginþátta: Annarsvegar hins heimsþekkta vörumerkis og hins vegar vegna þeirrar háþróuðu tækni og þekkingu sem Saab býr yfir. Hann segir að næsta skrefið í málinu sé að fá fund með bústjóra þrotabúsins um hugsanleg kaup. Ef af þeim verði sé ætlunin að halda stórum hluta bílaframleiðslunnar áfram í Trollhättan í Svíþjóð.