Sænskar konur áhugalitlar um skrautfelgur
24.01.2006
Sænskum konum alveg sama um álfelgur.
Það hefur lengi verið vitað að konur eru ábyrgir ökumenn og koma hlutfallslega sjaldnar við sögu í umferðarslysum. En hvernig bíla vilja þær og hvernig eiga þeir að vera búnir? Mánaðarritið Femina í Svíþjóð sem er kvennatímarit hefur birt niðurstöður könnunar á viðhorfum og óskum 900 lesenda sinna til eigin bíla. Meðal niðurstaðna er það að silfurlitir jeppar og jepplingar höfða mjög til þeirra, en þeim er nákvæmlega sama hvort stællegar álfelgur eru undir bílnum eða ekki. Sænskar konur eru heldur ekki mikið fyrir að skipta um dekk ef springur og kalla á aðstoð við dekkjaskiptin.
Sá litur sem konurnar óskuðu oftast eftir á næsta nýja bíl var silfurgrár – vinsælasti bílliturinn í heiminum um þessar mundir. Fjórða hver kona í könnuninni valdi silfurlitinn. Næst vinsælasti liturinn reyndist vera rauður og í þriðja sæti var mjög dökkblár, næstum svartur. Aðeins 1% kvennanna gátu hugsað sér að eiga hvítan bíl.
Þeir eiginleikar bíla sem í mestum metum reyndust voru öryggi og rekstraröryggi og draumabíllinn reyndist vera jeppi því konurnar töldu jeppa veita börnum í bílnum mesta vörn. Bílaframleiðendur hafa lengi trúað því að atriði eins og spegill í sólskyggni ökumannsmegin höfði sérstaklega til kvenna. Þessi spegill lenti hins vegar neðarlega á forgangslista hinna sænsku kvenna. Efst varð sjálfvirkt hita- og loftræstikerfi og þar næst gott útvarp og hljómkerfi.
Þriðjungur kvennanna kvaðst alltaf aka innan hámarkshraðamarka en meirihluti hinna kvaðst aka hraðar ef þær væru ekki með börn í bílnum eða aðra farþega. Einungis fimmtungur kvaðst geta skipt um dekk ef spryngi. Langflestar mældu reglulega loftþrýsting í dekkjum og sæju um að skipta yfir á vetrar- og sumardekk eftir árstíðum. Flestar sjá sjálfar um þvott og þrif á bílum sínum og loks töldu 94 prósent sig vera góða ökumenn.
Loks voru konurnar spurðar um umhverfismilda bíla og forsendur til að fá sér slíkan bíl. 73 prósent sögðust myndu fá sér slíkan bíl vegna þess að skattar af þeim væru lægri en 27 prósent nefndu umhverfisástæður.