Sætamiðlun í einkabílum
Leið ehf á Bolungarvík hefur gert athyglisverðar athugasemdir við lagafrumvarp um almenningssamgöngur sem nú liggur fyrir alþingi. Leið ehf leggur til að viðuki verði settur í frumvavrpið sem lýtur að betri nýtingu einkabíla. Það gerist með því að miðla tómum sætum í einkabílum þegar þeim er ekið milli staða. Það yrði í þágu beggja aðila, þ.e.a.s. farþega og bíleiganda, að verða þannig samferða og geta deilt með sér kostnaðinum af akstri bílsins.
Það er Jónas Guðmundsson í Bolungarvík sem er frumkvöðull að Leið ehf og helsti höfundur margra ágætra hugmynda sem fram hafa komið undanfarin ár í nafni Leiðar, m.a. um vegatengingar á Vestfjörðum og víðar og nú um samnýtingu einkabíla og skiptingu ferðakostnaðar.
Í athugasemdum Leiðar við fyrrnefnt frumvarp er m.a. bent á að ökumaður sé oftast einn á ferð í einkabílnum. Líklegt sé að talsvert sætaframboð sé því til staðar í einkabílum sem ekið er milli staða og því sé bæði hagkvæmt og skynsamlegt að farþegar og bíleigendur deili með sér ferðakostnaðinum. Þessi tómu farþegasæti einkabílanna mætti nefnilega nýta mun betur ef góður samskiptavettvangur væri til staðar til að miðla óskum fólks um far og upplýsingum frá ökumönnum einkabíla um ferðir sínar. „Þessi samgöngumáti og vefir sem miðla upplýsingum um óskir um far og far í boði eru vel kunnir í nokkrum nágrannalanda okkar,“ segir í athugasemdum Leiðar ehf. Leið ehf lætur reyndar ekki sitja við orðin tóm því kominn er upp vísir að vefsíðu sem miðlað getur sætum í einkabílum og móttekið greiðslu frá farþegum og miðlað henni til bíleigendanna.