Safnar einkaleyfum
Bosch er það evrópska fyrirtæki sem flest einkaleyfi fékk hjá Evrópsku einkaleyfastofnuninni í fyrra, eða 838. Fyrirtækið hafði hins vegar sótt um 4.700 slík leyfi. Alls ræður fyrirtækið nú meir en 90 þúsund iðnaðareinkaleyfum. Einkaleyfi koma í veg fyrir að aðrir geti tekið hugmyndirnar, fjölfaldað þær og gert að sínum.
Það tekur umtalsverðan tíma að fá einkaleyfi hjá Evrópsku einkaleyfastofnuninni í Hollandi sem annast einkaleyfismál fyrir 38 Evrópuríki. Eftir að umsókn hefur verið skilað tekur við langt könnunar- og rannsóknaferli sérfróðra starfsmanna til þess að ganga úr skugga um að einhver samsvarandi hugmynd sé þegar orðin að veruleika. Ef svo reynist ekki vera fer málið fyrir sérstakt ráð sem á endanum veitir einkaleyfi eða hafnar umsókn.
Bosch ver meira en 8 prósentum af veltu sinni til rannsókna og þróunarstarfs. Í fyrra voru útgjöld Bosch vegna þessarar starfsemi 4,5 milljarðar evra.