Sala á dísilbílum eykst á næstu árum
09.03.2007
Fyrir einungis áratug var hlutfall dísilbíla í fólksbílaflota Evrópu um 30%. Á nýliðnu ári var hlutfall dísilbílanna komið í 50% og ljóst þykir að á næsta áratug muni þetta snúast alveg við miðað við stöðuna fyrir áratug. Hlutfall dísilbíla verði senn 70% á móti 30% bensínbíla. Búist er við að flestallir nýir dísilbílar framtíðarinnar verði búnir öragnasíum og rafbílar með dísil-ljósavél verði æ algengari á næstu árum.
Ástæðan er ekki síst vaxandi umhverfisvitund og ný lög í Evrópu um að bílar gefi ekki frá sér meir en 130 grömm af CO2 á hvern ekinn kílómetra. Þessu markmiði verður trauðla náð nema með dísilvélum.
Dísilfólksbílar hafa átt erfitt uppdráttar í Bandaríkjunum. Ástæðan er einkum mengunarlög þar sem höfuðáhersla er á magn níturoxíðsambanda, Nox. En dísilvélar hafa þróast mjög hratt undanfarin ár og eru orðnar afar „Nox-hreinar“ til viðbótar við það að þær gefa frá sér umtalsvert minna magn CO2 en sambærilega bensínvélar.
Bílaframleiðendur vænta verulegra breytinga í eldsneytis- og mengunarpólitík Bandaríkjamanna þegar nýr forseti verður kjörinn þar eftir um eitt og hálft ár og þær breytingar muni opna enn frekar dyrnar fyrir dísilfólksbílum, eftirspurn almennings eftir þeim muni stóraukast og dísilbílum þar með fjölga mjög á næstu árum í Bandaríkjunum.