Sala á rafbílum á eftir að taka kipp
Viðbúið er að rafbílum muni fjölga töluvert á næstu misserum, en frá og með 1. janúar 2020 taka gildi reglur á Evrópska efnahagssvæðinu um hámark meðallosunar allra seldra bíla frá hverjum framleiðanda á koltvísýringi, sem ekki má fara yfir 95 grömm á hvern ekinn kílómeter. Þetta kemur fram í umfjöllun í Viðskiptablaðinu.
Fram kemur í máli Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar, að ekki aðeins losa rafbílar engan koltvísýring, heldur telja þeir, og tvinnbílar sem losa undir 50 grömm, tvöfalt samkvæmt reglunum. Bílaframleiðendur hafa því verið að spara rafbílana þar til reglurnar taka gildi.
Í Viðskiptablaðinu kemur ennfremur fram að sé meðallosun tiltekins framleiðanda yfir viðmiðunarmörkunum, er hann sektaður um tiltekna upphæð fyrir margfeldi gramma yfir mörkum og fjölda seldra bíla.
„Við erum að tala um hundruð milljóna og jafnvel milljarða evra í sektir. Rafbílar losa auðvitað 0 grömm, og að auki telja þeir tvöfalt samkvæmt reglunum, ásamt tvinnbílum sem losa undir 50 grömmum. Framleiðendur keppast því um þessar mundir við að framleiða rafbíla til að koma í sölu á næsta ári. Þess vegna eru allir þessir evrópsku rafbílar að koma á markaðinn á næsta ári. Fjöldi rafhlaða í heiminum er takmarkaður, og menn hafa því verið að spara sig þar til reglurnar taka gildi. Ef þeir skrá þá í desember 2019 þá telja þeir ekki,“ segir Egill, en Brimborg fékk það staðfest á dögunum að Evrópska efnahagssvæðið, og þar með Ísland, er talið með í þessum reglum. Færum við út úr EES, hefðu framleiðendur því ekki sama hag af því að selja rafbíla hingað til lands. „Þá fengi Ísland einfaldlega enga rafbíla.“