Sala á Zoe hefur farið hægt af stað
Salan á hinum nýja Renault Zoe rafbíl fer hægar af stað í Evrópu en vænst var. Hjá Renault reiknuðu menn með 50 þúsund eintaka árssölu en verulega vantar upp á að það markmið náist.
Þrátt fyrir að Renault Zoe hafi hlotið mjög góðar viðtökur og ágæta dóma hjá bílablaðamönnum þá hefur það augljóslega ekki dugað til að sannfæra bílakaupendur. Til og með septembermánuði höfðu nefnilega aðeins 6.600 Zoe rafbílar verið nýskráðir í Evrópu sem gæti þýtt að árssalan á árinu verði um 10 þúsund bílar eða einungis fimmtungur þess sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Í Danmörku hafa til þessa einungis 54 Zoe bílar verið nýskráðir.
Franska markaðsrannsóknafyrirtækið Inovev hefur tekið þetta saman en reiknar með að kaupendur muni smátt og smátt taka við sér og 50 þúsund bíla markið náist á endanum, en þó varla fyrr en 2020.
Með Zoe er Renault í raun að keppa við sjálft sig með því að höfða til sama kaupendahóps að nokkru leyti og gert er með Nissan Leaf. Reyndar fór sala á Leaf mun hægar af stað upphaflega en reiknað hafði verið með, en hefur verið að taka ágætlega við sér undanfarna mánuði.
Renault-Nissan samsteypan er sá bílaframleiðandi sem mesta rækt hefur lagt við rafbíla. Þegar Renault og Nissan rafbílar komu fyrst á markað fyrir nokkrum árum þá sögðu stjórnendur samsteypunnar að stefnt væri að því að selja 1,5 milljón rafbíla í heiminum fyrir lok árs 2015. Nokkuð ljóst er að þær áætlanir nást varla fyrr en um 2020.