Sala Fiat 500 í USA
Automotive News, tímarit bandaríska bílaiðnaðarins greinir frá snöggum og góðum viðsnúningi Chrysler Group (Chrysler/Fiat) undir stjórn Sergio Marchionne og að þegar sé ríkislánið sem forðaði Chrysler frá gjaldþroti fyrir fáum árum fullgreitt. En það gengur ekki allt upp hjá samsteypunni: Sala á smábílnum Fiat 500 í Bandaríkjunum er langt undir áætlunum.
Salan hófst í mars sl. Gengið var út frá því að árssalan yrði 50 þúsund bílar en þær áætlanir hafa alls ekki staðist. Í októberlok höfðu einungis selst 15,826 bílar og þar af einungis 29 bílar í október. Og á sölustöðunum nú, þegar harða vetur er ýmist að ganga í garð eða er þegar skollinn á, standa óseldir á sölustöðunum alls 13.730 Fiat 500 bílar með blæjutoppi og litlar líkur taldar á því að þeir seljist svo seint að haustinu né að gott verð fáist fyrir þá næsta vor sem eftirársbíla.
En menn reyna og nú býður Fiat í USA hugsanlegum kaupendum 500 dollara afslátt af bílunum. Automotive News telur að afslátturinn sé allt of seint á ferðinni til að koma sölunni af stað og þannig hindra frekari samdrátt og uppsagnir 65 starfsmanna í Fiat/Chrysler verksmiðjunni í Dundee í Michigan þar sem vélarnar í bílana eru búnar til.
Markaðssetningin á Fiat 500 í Bandaríkjunum var hluti af stærra dæmi sem var það að ryðja Fiat vörumerkinu aftur rúms í Bandaríkjunum eftir áratuga fjarveru. Lögð var áhersla á að kynna bílinn fyrst og fremst ungu fólki og var leikkonan Jennifer Lopez fengin til að auglýsa bílinn sem sérlega sparneytinn en snaggaralegan og vandaðan lífsstílsbíl.
Fiat og þá sérstaklega Fiat 500 átti líka eftir sameiningu Chryslers og Fiat árið 2009 að verða hinn sparneytni valkostur samsteypunnar sem á þeim tíma átti hreinlega enga sparneytnari bíla en Jeep Compass, Jeep Patriot og Dodge Caliper en enginn þeirra eyddi minna en níu lítrum á hundraðið samkvæmt opinberri eyðslumælingu og allir seldust illa.
En hversvegna selst Fiat 500 ekki betur vestanhafs en þetta – bráðsparneytinn bíll sem rennur út í Evrópu? Er það vegna þess að Bandaríkjamönnum finnst hann of lítill eða er það vegna þess að sölukerfi Chryslers er í molum?
Ýmsir bandarískir bílasalar segja að bíllinn sé ástæðan en Marchionne segir sjálfur að það sé alls ekki svo, heldur að sölukerfið hafi ekki reynst tilbúið. Enduruppbygging þess sé einfaldlega hálfu ári á eftir áætlunum. „Það hafa einungis verið milli 50 og 60 virkar Fiat bílasölur í öllum Bandaríkjunum mestallt þetta ár,“ segir Marchioanne. „Ég held að söluaðilar Ferrari séu talsvert fleiri en það.“
En hversvegna eru þær þá svona fáar? Ástæðan er sú að Chrysler Group heimilaði söluumboðunum ekki að opna einfaldlega Fiat deild í bækistöðvum sínum heldur krafðist þess að stofnuð yrðu sérstök aðskilin Fiat söluumboð og sérstakir samstarfssamningar undirritaðir um þau. Mörgum bílasölum þóttu þetta dýrir afarkostir og einfaldlega neituðu að taka Fiatinn í sölu á þessum nótum. Fiat 500 væri allt of lítill og ódýr bíll og sala hans of óviss til að standa undir slíkum fjárfestingum.
Algengt verð á nýjum Fiat 500 út úr búð í Bandaríkjunum er um 16 þúsund dollarar eða um 1,8 millj. ísl kr.