Sala hefst á Kínabílnum Brilliance BS4 í Þýskalandi

http://www.fib.is/myndir/BrillianceBS4.jpg
Brilliance BS4.

Um næstu helgi  hefst sala á kínverska bílnum Brilliance BS4 í Þýskalandi. Innflutningsfyrirtækið HSO Motors Europe sem hefur höfuðstöðvar sínar í Luxembourg, hefur byggt upp sölunet og er markmiðið að selja 10 þúsund bíla á ári. Verðið er óneitanlega nokkuð hagstætt. Það byrjar í tæplega 16 þúsund evrum. Þeir fjölmiðlar sem fjalla um bíla setja hins vegar spurningamerki við það hversu öruggir kínversku bílarnir eru ef slys verður.

Nú þegar heimskreppa vofir yfir eykst eftirspurn eftir ódýrum og einföldum bílum. Hana vill HSO Motors Europe koma til móts við með kínversku bílunum og horfir til þess góða árangurs sem Renault hefur náð með sínu eigin ódýra merki; Logan. Ódýrasta gerð Brilliance verður seld á 15.990 evrur. Að stærð og búnaði svipar bílnum til Renault Megane. Til samanburðar kostar Megane frá 17.800 evrum.

Markmið HSO Motors Europe er að selja 10.000 BS4 á ári sem nægir til að standa á sléttu. En að selja þennan bíl er ekki einfalt mál fyrir þær sakir að hann uppfyllir ekki lágmarkskröfur Evrópusambandsins um vernd fótgangandi sem kunna að vera fyrir bílnum. Þessvegna fæst hann ekki gerðarviðurkenndur heldur verður að fá svokallaða eins bíls viðurkenningu (Single Vehicle Approval) fyrir hvern og einn einasta seldan bíl til að fá hann skráðan á númer.

Brilliance BS4 er með fjögurra strokka vélum 1,6 eða 1,8 l að rúmtaki. Hann var sýndur á bílasýningunni í París sem lauk um síðustu helgi. Auk hans var einnig sýnd stærri gerðin sem nefnist BS6. Kínverjar ætla að þreifa fyrir sér í Bandaríkjunum með það hvort áhugi sé fyrir bílnum þar. Það verður gert með því að sýna hann á bílasýningunni í Detroit í janúar nk.

En auk þess að BS4 nær ekki að uppfylla lágmarkskröfur um öryggi fótgangandi þá ríkir einnig vafi um hvort árekstrarþol hans sé yfirleitt viðunandi. BS4 er að mestu byggður á sama grunni og stærri BS6. Um ár er liðið síðan ADAC, hið þýska systurfélag FÍB árekstursprófaði einmitt Brilliance BS6 samkvæmt forskrift EuroNCAP. Skemmst er frá því að segja að bíllinn kolféll á því prófi og Þjóðverjarnir sögðu að bíllinn væri hrein dauðagildra (Totfälle). Í kjölfarið var hætt við að setja bílinn á markað í Þýskalandi. Spurning er nú hvað gerist með BS4. Verður hann árekstursprófaður og hvernig verður niðurstaðan ef af prófinu verður?