Sala nýrra bíla á uppleið í Evrópu
Bráðabirgðatölur um sölu nýrra bíla í Evrópu sýna lítilsháttar aukningu eftir ansi mörg mögur ár og mánuði. Í Bretlandi jókst nýbílasalan í júlí miðað við mánuðinn á undan um 13 prósent og á Spáni um 15 prósent. Í öðrum löndum þar sem samdráttur hefur verið lengi virðist sem hann hafi stöðvast. Kannski að botninum sé loks náð.
Á Íslandi er hins vegar ekki margt sem bendir til betri tíðar. Endurnýjun bílaflotans hefur eins og undanfarin ár og mánuði að mestu verið í bílaleigubílum og einkabílaflotinn heldur áfram að eldast og verð á notuðum bílum er áfram hátt.
Breskir sölumenn nýrra bíla eru hins vegar býsna ánægðir með nýliðinn júlímánuð. Salan hefur gengið vel og nú eru bílar af árgerð 2014 að byrja að tínast inn í sölukerfin eitt af öðru og aðal bílaendurnýjunartíminn að ganga í garð.
Nýbílasala í Evrópu hefur verið að dragast saman um langan tíma. Meira að segja bílalandið mikla, Þýskaland var farið að finna fyrir umtalsverðum samdrætti í byrjun þessa árs eftir nokkuð gott ár 2012. En árið 2012 var ekki gott bílasöluár annarsstaðar í Evrópu og á heildina litið var það hið lélegasta í álfunni í 17 ár, með 12,05 milljón selda bíla.
Samdrátturinn á fyrstu sjö mánuðum þessa árs í Þýskalandi stendur í mínus sjö prósentum að meðtalinni tveggja prósenta aukningu í júlí miðað við mánuðinn á undan. Þar vonast menn nú til þess að botninum hafi verið náð og það sem eftir lifir af árinu muni salan aukast. FÍB fréttir voru talsvert á ferðinni í Þýskalandi nýlega og þar áttu sér stað miklir flutningar á nýjum bílum af árgerðum 2014 bæði með lestum og flutningabílum. Það er í sjálfu sér vísbending um aukna sölu.
Í Bretlandi er aukningin mest í tegundunum og gerðunum Ford Fiesta, Ford Focus, Vauxhall (Opel) Astra og Volkswagen Golf.
Sem fyrr segir varð tæplega 15 prósenta aukning í sölu nýrra bíla á Spáni milli júní og júlímánaða sl. Þótt að hluta til megi rekja aukninguna til þess að stjórnvöld og bílaframleiðendur hækkuðu í sameiningu skilagjald á gamla bíla upp í tvö þúsund evrur til að herða á endurnýjun bílaflotans og fjölga sparneytnum og öruggum bílum en fækka eyðslufrekum og óöruggum gömlum, þá telja menn að botninum sé náð á Spáni og að héðan í frá taki bílaflotinn að yngjast.