Salan á Land Rover/Jaguar til Tata enn í lausu lofti

The image “http://www.fib.is/myndir/Landr.Freel.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Land Rover Freelander.

Ekki er enn búið að ganga endanlega frá kaupum Tata í Indlandi á Jaguar og Land Rover af Ford. Hvað tefur það að ganga endanlega frá kaupunum er ekki vitað en í indverskum fjölmiðlum gengur sú kenning ljósum logum að í rauninni sé Tata einungis að sækjast eftir Land Rover en ætli sér að losa sig við Jaguar við fyrsta tækifæri.

Ford Motor Company hefur tilkynnt fyrir löngu að Tata Motors sé sá aðili sem Ford vilji selja hina bresku dýrgripi, Jaguar og Land Rover til, í einum pakka. Söluferlið hefur nú staðið frá síðasta hausti og búist var við að því lyki um síðustu áramót.

Hinar indversku heimildir greina frá því að  augljóst sé hvers vegna Tata sækist eftir Land Rover: Aðal markaðir Tata séu í Asíu og jafnvel Afríku og Land Rover bílarnir falli mjög vel að þeirri bílaframleiðslu sem fyrir er hjá Tata og sé góð og eðlileg viðbót við hana. En hvað hefur Tata við sportbíla og lúxusbíla Jaguar að gera? Við þeirri spurningu sjá hinir indversku fjölmiðlar engin klár svör við.

Á indverskum netmiðli sem fjallar um bílaiðnaðinn í landinu er haft eftir áreiðanlegum heimildum að Ratan Tata forstjóri Tata Motors hafi keypt stórt landsvæði utan við Nýju Dehli og þar verði reist ný Land Rover verksmiðja. Þar sé ekki gert ráð fyrir Jaguar og um leið og kaupin við Ford eru afstaðin, verði Jaguar selt aftur eitt og sér.

Þessar fréttir koma eins og köld vatnsgusa framan í breska verkalýðsforystu sem bundið hefur talsverðar vonir við að Tata, sem væntanlegur eigandi Land Rover og Jaguar, ætli hafa framleiðsluna áfram að mestu leyti í Bretlandi.