Samanburður á bílalánum

Vefsíðan Aurbjörg – www.aurbjorg.is – er samstarfsverkefni áhugasamra aðila um aukið fjármálalæsi og miðlun upplýsinga um lánskjör og fjármál til neytenda. Samanburður bílalána og bílasamninga er nýleg viðbót og þjónusta hjá Aurbjörg. Þarna er hægt að bera saman bílalán og fá upplýsingar um lántökugjöld, vexti og lántökuskilyrði hjá helstu lánveitendum bílalána. Veittar eru upplýsingar um lánskjör eftir lánshlutfalli og lánstíma. Á síðunni eru hlekkir inn á reiknivélar lánafyrirtækjanna til frekari glöggvunar og fróðleiks. Vefsíðan er gott og upplýsandi hjálpartæki fyrir neytendur.
Aurbjörg er svokölluð fjártækni (e. fintech) vefsíða með það að markmiði að miðla upplýsingum til neytenda og ýta undir samkeppni á fjármálamarkaði. Aurbjörg er óháð fjármálafyrirtækjum.
Aurbjörg byrjaði sem hugarfóstur nokkurra einstaklinga sem vildu einfalda ferli neytenda þegar kemur að húsnæðislánum. Í framhaldi af því tóku Ólafur Örn Guðmundsson og Þórhildur Jensdóttir, mastersnemar í verkfræði, við hugmyndinni og smíðuðu og hönnuðu www.aurbjorg.is. Ólafur Örn hefur umsjón með vefnum og Hugbúnaðarþróun ehf. er ábyrgðaraðili vefsins. Aurbjörg hlaut Vefverðlaunin 2017 undir flokknum Gæluverkefni. Vefverðlaunin eru á vegum Samtaka vefiðnaðarins, SVEF.