Samdráttur í fjölda nýskráninga fólks- og sendibíla
Samdráttur í fjölda nýskráninga fólks- og sendibíla fyrstu sjö mánuði ársins hér á landi nam rúmlega 12%. Fjöldi nýskráninga í þessum flokki var 14.741 bíll en á sama tímabili 2017 seldust alls 16.794 bifreiðar. Munar mestu í þessum samanburði um nýja bíla sem bílaleigur eru að fá til sín en þar nemur samdrátturinn um 19%. Þetta kemur fram í tölum sem Bílgreinasambandið sendi frá sér.
Fyrstu sex mánuði ársins var tæplega 3% aukning í sölu nýrra bíla í Evrópu en þá komu á götuna um 9 milljónir bíla. Hlutdeild Volkswagen var mest, Renault kom í öðru sæti og Ford í þriðja sæti.
Sala á dísil bílum dróst saman í flestum löndum Evrópu en á sama tíma jókst sala á rafbílum töluvert, langmest í Noregi, þar sem hlutdeild rafbíla er sú mesta í Evrópu.