Nýskráningar um 20% færri miðað við árið á undan
Nú liggur fyrir sala á bifreiðum fyrir árið 2020. Nýskráningar voru alls 9.369 og nemur samdrátturinn um 20% í samaborið við tölur frá árinu áður. Árið 2019 voru nýkráningar alls 11.728.
Þegar er rýnt er betur í tölur frá Bílgreinasambandinu kemur í ljós að nýskráningar voru fleiri í fimm mánuðum ársins í samaburði við fyrra ár. Nýskráningar voru fæstar í maí en fletar í júlí. Samdrátturinn á fyrri hluta ársins 2020 var 42,5% miðað við sama tímabil 2019 en hins vegar 16,7% söluaukning á seinni hluta ársins.
Einstaklingar keyptu 7,1% fleiri fólksbíla en árið 2019 og almenn fyrirtæki keyptu sömuleiðis 7,1% fleiri fólksbíla. Bílaleigur drógu hins vegar úr kaupum um 57,4% á milli ára og því ljóst að heildarsamdráttinn má fyrst og fremst rekja til minni umsvifa í ferðaþjónustunni, sem á sér augljósar skýringar.
Mikil aukning var í nýskráningum nýorkubíla (rafmagn, tengiltvinn, hybrid og metan) Samtals stóð þessi hópur bíla fyrir 57,9% nýskráninga en til samanburðar var hlutfallið 27,6% árið 2019. Hreinir rafmagnsbílar fóru þarna fremstir í flokki með 25,2% af öllum nýskráningum. Þar næst komu tengiltvinnbílar með 19,9%, hybrid bílar með 12,5% og metanbílar með 0,4%.
Mest selda fólksbílategundin á árinu var Toyota með 1.383 bíla og 14,8% hlutdeild, þar á eftir kom Kia með 929 bíla og 9,9% hlutdeild og svo Tesla með 903 bíla og 9,6% hlutdeild. Hyundai var í fjórða sætinu með 698 bíla og Volkswagen í fimmta sæti með 617 bíla. Í sætunum þar á eftir komu Mitsbubishi, Suzuki, Nissan og Volvo.
Óvissan fyrir árið 2021 er tiltölulega mikil þegar kemur að því að spá fyrir um sölu. Mun það velta á mörgum þáttum og má þar helst nefna hvernig gengur í baráttunni við Covid, hvort rætist úr atvinnu- og efnahagsmálum og hvort ferðaþjónustan taki við sér að ráði og hefji á ný að fjárfesta í bílaleigubílum.
Spá Bílgreinasambandsins gerir ráð fyrir að það seljist 11.000 nýir fólksbílar á árinu 2021. Það mun þá þýða 17,4% söluaukningu frá árinu 2020 en ljóst er að ýmislegt þarf að ganga eftir á árinu til að svo megi verða.