Samdráttur í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í apríl dróst saman um 2,6 prósent og hefur það ekki gerst síðan árið 2014. Umferðin á svokölluðum gráum degi - þegar búist var við miklu svifryki og frítt var í strætó - reyndist tíu prósentum meiri en að meðaltali á mánudögum í apríl. Grái dagurinn bar upp á mánudag. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.
Umferðin í apríl, yfir þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, dróst saman um 2,6% milli aprílmánaða 2018 og 2019. Þetta er í fyrsta sinn sem samdráttur mælist milli aprílmánaða frá því árið 2014 en þá mældist 0,1% samdráttur. Samdráttur varð í öllum sniðum en mest dróst umferðin saman yfir mælisnið á Hafnarfjarðarvegi sunnan Kópavogslækjar eða um 5%.
Núna hefur umferðin aukist um 0,9%, frá áramótum, borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Leita þarf aftur til ársins 2012 til að finna minni aukningu miðað við árstíma.
Umferð vikudaga
Mest var ekið á miðvikudögum í apríl og minnst á sunnudögum. Umferð jókst á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum en dróst saman hina dagana. Mest jókst umferðin á þriðjudögum en mestur varð samdrátturinn á föstudögum eða rúmlega 14%, sem er fáséður samdráttur.
Þann 8. apríl var svo kallaður grár dagur þegar mikið svifryk var yfir höfuðborginni. Umræddan dag bar upp á mánudag og reyndist umferðin á höfuðborgarsvæðinu um 10% meiri en á meðalmánudegi í apríl, þrátt fyrir að boðið væri upp á frítt í strætó.
Miðað við það sem liðið er af árinu þá gefa umferðargögn til kynna að umferðin gæti aukist nokkuð eða í kringum 5,5%, en haldi áfram að draga úr umferð á næstu mánuðum má búast við þvi að aukningin, ef hún verður, verði ekki svona mikil.