Samdráttur í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu um 21%
Umferðin þar sem af er mars, í lok viku 13, hefur umferðin í mánuðinum á höfuðborgarsvæðinu dregist saman um 21 prósent. Það jafngildir 0,7 prósenta samdrætti dag hvern. Samdrátturinn heldur því áfram að aukast eftir því sem samkomubann er hert og það lengist í því. Samdrátturinn í samfélaginu í heild endurspeglast í umferðinni.
Nú þegar vika 13 er liðin hefur umferð, í þremur lykil mælisniðum Vegagerðarinnar, dregist saman um tæplega 21% það sem af er mars mánuði miðað við sama tímabil á síðasta ári, eða um rétt rúmlega 0,7% á dag.
Afleiðingar faraldursins og samkomubanns eru því að birtast með mjög skýrum hætti í umferðartölum. Þetta er einnig áhugavert út frá tengingu umferðartalna við landsframleiðslu og reynsla undanfarinna ára sýnir töluvert forspárgildi umferðarinnar um landsframleiðsluna. Kann þetta fall í umferð því einnig að vera vísbending um það hversu hratt hagkerfið kólnar.
Eins og áður dregst umferð um Hafnarfjarðarveg lang mest saman. Hin tvö sniðin á Reykjanesbraut og á Vesturlandsvegi dragast svipað saman. Það er ef til vill rannsóknarefni hvers vegna Hafnarfjarðarvegurinn dregst miklu meira saman en hin tvö sniðin. Vegagerðin hefur í augnablikinu ekki haldbæra skýringu á þessum mikla mun á samdrætti á Hafnarfjarðarvegi annarsvegar og hinum tveimur sniðunum hins vegar.