Samgönguáætlun 2024-2038: Öryggi í samgöngum og jarðgöngum forgangsraðað

Þings­álykt­un­ar­til­laga innviðaráðherra um nýja sam­göngu­áætlun var kynnt í gær. Meðal þess sem fjallað er um í áætl­un­inni er for­gangs­röðun um upp­bygg­ingu jarðganga og kemur fram að rúm­lega 900 millj­örðum króna verði varið í sam­göngu­fram­kvæmd­ir næstu fimmtán árin.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son innviðaráðherra kynnti í gær þings­álykt­un­ar­til­lög­una á Hót­el Nordica. Í kjöl­far fund­ar­ins varð til­lag­an aðgengi­leg í sam­ráðsgátt og verður hægt að senda inn um­sögn eða ábend­ing­ar vegna henn­ar til og með 31. júlí næst­kom­andi. Til­lag­an verður tek­in fyr­ir á Alþingi í haust.

Í þings­álykt­un­ar­til­lög­unni, sem nær frá ár­inu 2024 til 2038, er farið um víðan völl. Til dæm­is er þar reifuð jarðganga­áætl­un til næstu þrjá­tíu ára og farið yfir for­gangs­röðun fjór­tán ganga. For­gangs­röðunin var unn­in eft­ir að heild­stærð grein­ing á jarðganga­kost­um hafði verið fram­kvæmd. Þá hef­ur Rann­sókn­ar­miðstöð Há­skól­ans á Ak­ur­eyri einnig unnið mat á arðsemi, um­ferðarör­yggi og teng­ingu svæða ásamt fleiru og var Vega­gerðin með í áætlana­gerð.

619 kíló­metr­ar vega sem eru í dag með mal­ars­lit­lagi verða á sam­göngu­áætlun bundn­ir slit­lagi

Þess má geta að 619 kíló­metr­ar vega sem eru í dag með mal­ars­lit­lagi verða á sam­göngu­áætlun bundn­ir slit­lagi. Alls eru um 2.118 kíló­metra tengi­vega á Íslandi með mal­ars­lit­lagi. Fram kom í máli ráðherra langt í það að hægt verði að klára að binda alla vegi slit­lagi.

Haldið verður áfram með átak í lagningu bundins slitlags á tengivegi út gildistíma áætlunarinnar með 2,5 ma. kr. framlög á ári. Áætlað er að með því móti muni takast að leggja bundið slitlag á um 619 km af vegum sem í dag eru malarvegir fyrir árið 2038. Loks verður hugað að uppbyggingu á göngu-, hjólreiða- og reiðstígum. Framlög til þessara innviða hafa aukist á undanförnum árum og áfram verður haldið á sömu braut.

Á kynningunni sagði Sigurður Ingi að forsendur framkvæmda í samgönguáætlun miðast við fjármálaáætlun þar sem spornað er gegn verðbólgu og frekari hækkun vaxta með auknu aðhaldi og frestun framkvæmda. Forgangsröðunin er síðan endurskoðuð á hverju ári í nýrri fjármálaáætlun. Þá verður tekjuöflun af farartækjum og umferð endurskoðuð þar sem skatttekjur hafa lækkað talsvert vegna hærri hlutdeildar vistvænna ökutækja í umferðinni.

Eins og áður kom fram er gert er ráð fyrir að á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar verði 909 milljörðum kr. varið samgangna þar af um 263 ma.kr. á fyrsta fimm ára tímabili áætlunarinnar. Til viðbótar bætast við verkefni sem verða fjármögnuð með samvinnuverkefnum, s.s. ný Sundabraut og brú yfir Ölfusá.

80 km af stofnvegum breikkaðir

Hvalfjarðargöng tvö og göng undir Öxnadalsheiði koma til framkvæmda og engar einbreiðar brýr verða á hringveginum eftir fimmtán ár. Meðal helstu framkvæmda í áætluninni eru meðal annars tvöföldun Reykjanesbrautar- og framkvæmdir við Suðurlandsveg og Kjalarnesveg þar sem akstursstefnur verða aðskildar. Þá verða 80 km af stofnvegum breikkaðir. Ennfremur er stefnt að fækkun einbreiðra brúa um allt land og þannig gert ráð fyrir að engin einbreið brú verði eftir á hringveginum í lok áætlunarinnar.

Í tillögunni að samgönguáætlun er sett fram jarðgangaáætlun til 30 ára. Lögð er til forgangsröðun næstu 10 jarðganga á Íslandi ásamt fjórum öðrum jarðgangakostum til nánari skoðunar. Jarðgöngin eiga öll það sameiginleg að vera lykilþáttur í að treysta búsetuskilyrði um land allt og veita umferð fram hjá hættulegum og óáreiðanlegum fjallvegum. Um er að ræða flest jarðgöng sem komið hafa til umfjöllunar á síðustu árum. Stefnt er að því að allir jarðgangakostir komi til framkvæmda á næstu 30 árum.

Í áætluninni eru sett fram áform um árlega fjárfestingu, utan fjárhagsramma, á bilinu 12-15 milljarða kr. í jarðgangagerð til ársins 2038. Fjármögnun þeirrar fjárfestingar er hluti af heildstæðri endurskoðun tekjuöflunar af farartækjum og umferð.

Tíu jarðgöng - forgangsröðun

  • Fjarðarheiðargöng
  • Siglufjarðarskarðsgöng
  • Hvalfjarðargöng tvö
  • Göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur
  • Göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur
  • Breiðdalsleggur, breikkun
  • Seyðisfjarðar- og Móafjarðargöng
  • Miklidalur og Hálfdán
  • Klettháls
  • Öxnadalsheiði

Fjögur önnur göng eru til skoðunar, Reynisfjall, Lónsheiði, Hellisheiði eystri, Berufjarðargöng og Breiðdalsheiðargöng. 

Samgöngusáttmáli á höfuðborgarsvæðinu verður uppfærður en áfram verður fjármagn til undirbúnings Sundabrautar tryggt.