Innheimta vegtolla til og frá höfuðborginni gæti hafist 2023
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði m.a. í Bítinu á Bylgjunni í morgun að fyrirhugað væri að flýta mörgum verkefnum á samgönguáætlun. Lagt hafi verið til að á næstu sjö árum verði m.a. hægt að fjármagna aðskilnað umferðar úr gagnstæðum áttum frá höfuðborginni suður að Keflavíkurflugvelli, austur á Selfoss og að Borgarnesi. Samanlagt séu þetta um 40 milljarðar króna sem fjármagnaðir verði úr ríkissjóði. Eitt verkefni, ný brú yfir Ölfusá, verði líklega fjármagnað í samvinnu ríkis og einkaaðila.
Ráðherra sagði einnig að sérstakur kraftur yrði settur í fækkun einbreiðra brúa á næstu árum vegna aukins umferðarþunga og til að bæta umferðaröryggi.
Þáttarstjórnendur spurðu um væntanlega gjaldtöku? Ráðherra svaraði að ákveðið hefði verið að hugsa út fyrir boxið varðandi verkefnin, m.a. á stofnbrautunum, og setja á notendagjöld í þeim tilgangi að þurfa ekki að bíða í 15 ár eftir framkvæmdum. Þá var Sigurður spurður um það hvenær mætti búast við því að komin væru gjaldtökuhlið við þessa vegi? Ráðherra svaraði það væri mismunandi eftir framkvæmdahraða en að frumvarp sem heimili gjaldtöku og stofnun félaga um framkvæmdirnar verði lagt fyrir þingið í haust. Sigurður Ingi sagðist vonast til að framkvæmdir gætu hafist á árunum 2020 til 2021. Sumum verkefnum væri hægt að ljúka á tveimur til þrem árum og þá hefjist innheimta vegtolla í kjölfarið.
Miðað við þessi orð Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra gætu vegfarendur átt von á því að þurfa að borga vegtolla á einhverjum vegum til og frá höfuðborgarsvæðinu þegar á árunum 2023 til 2024.
Þarna er um að ræða algjöra stefnubreytingu frá yfirlýsingum formanns Framsóknarflokksins í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga í október 2017. Þetta gengur einnig þvert á vilja meirihluta landsmanna samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum og undirskriftasöfnunum á liðnum árum.