Samkeppni um hönnun brúar yfir Fossvog
Teymi EFLU og Studio Granda hefur verið valið sem eitt af sex teymum sem taka þátt í samkeppni um hönnun brúar yfir Fossvog, milli Reykjavíkurflugvallar og Kársness. Brúin mun þjóna almenningssamgöngum, gangandi og hjólandi vegfarendum og gegna lykilhlutverki í 1. áfanga Borgarlínu.
EFLA og Studio Granda mynda eina íslenska teymið sem komst í gegnum forval á vegum Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar. Alls tóku 17 teymi þátt í forvalinu. Í hinum teymunum er að finna mörg af virtustu fyrirtækjum í Evrópu á sviði brúarverkfræði og arkitektúrs.
Á EFLU starfar hópur verkfræðinga sem síðustu ár hefur sérhæft sig í fjölbreyttum brúarverkefnum á Íslandi og í Noregi. Samstarf EFLU og Studio Granda í brúarhönnun hefur verið farsælt og skilað mörgum vel heppnuðum mannvirkjum. Nægir þar að nefna göngubrýr yfir Hringbraut og Njarðargötu, yfir Úlfarsá og yfir Reykjanesbraut, bæði við Stekkjarbakka og í Hafnarfirði. Auk þess hefur teymið síðustu ár hannað göngu- og hjólabrýr sem byggðar hafa verið í Noregi.
Gert er ráð fyrir að niðurstaða í hönnunarsamkeppninni liggi fyrir í maí.