Samkeppniseftirlitið sendir erindi á Samtök fjármálafyrirtækja (SFF)
Að undanförnu hefur FÍB ítrekað bent á samræmt iðgjaldaokur tryggingafélaganna í bifreiðatryggingum. Lítil eða engin viðbrögð hafa komið frá tryggingafélögunum fjórum sem eiga að heita keppinautar á markaði. Hins vegar snérust Samtök fjármálafyrirtækja til varnar fyrir hönd tryggingafélaganna í grein sem framkvæmdastjórinn, Katrín Júlíusdóttir ritaði og birti á netmiðlinum Vísi. Í greininni bar Katrín brigður á málflutning FÍB um skort á verðsamkeppni og stöðuga hækkun iðgjalda ökutækjatrygginga. Í greininni var einnig að finna tilvísun í töluleg gögn frá Hagstofunni sem ekki stóðust skoðun.
FÍB sendi kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna hagsmunagæslu SFF fyrir hönd aðildarfélaga á vátryggingamarkaði fyrr í vikunni. Samkeppniseftirlitið brást skjótt við erindinu og hefur þegar sent erindi á framkvæmdastjóra SFF þar sem samtökin eru m.a. krafinn svara og gagna um viðbrögð SFF við greinum FÍB.
Samkeppniseftirlitið bendir SFF á að fyrirsvar fyrir tryggingafélögin öll sem eitt geti haft samkeppnishindrandi áhrif á markaðinn. SFF er óheimilt að verja verðlagningu aðildarfélaga sinna á opinberum vettvangi. Slíkt er ekki eðlilegt hlutverk hagsmunasamtaka keppinauta. Samkeppniseftirlitið bendir á að bann 12. gr. samkeppnislaga, sbr. 10. gr. laganna, taki til SFF sem hagsmunasamtaka keppinauta á fákeppnismarkaði. ,,Samkvæmt því ákvæði er samtökum fyrirtækja óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum. Bann 10.gr. samkeppnislaga tekur til aðildarfyrirtækja SFF.“ (Erindi Samkeppniseftirlitsins til SFF 16.09.2021)
Samkeppniseftirlitið gefur SFF frest til 29. september 2021 til að skila inn viðamiklum gögnum um möguleg afskipti samtakanna varðandi verðlagningu aðildarfélaga. Meðal annars er óskað eftir afritum af öllum samskiptum SFF við aðildarfyrirtæki á tímabilinu frá 1. maí 2021 til dagsins í dag. Einnig er óskað eftir afritum af öllum gögnum sem tengjast viðbrögðum við SFF við gagnrýni á verðlagningu eða aðra samkeppnisþætti.
Meðfylgjandi erindi Samkeppniseftirlitsins til SFF er kvörtunin sem FÍB sendi inn vegna mögulegra samkeppnisbrota SFF. SFF er gefinn kostur á að tjá sig um kvörtun FÍB.
Samkeppniseftirlitið mun í framhaldinu ákveða hvort málið verið tekið til frekari rannsóknar.
Erindi til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands
FÍB blaðið sendi erindi á Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra og Unni Gunnarsdóttur varaseðlabankastjóra í síðustu viku og óskaði eftir viðbrögðum og svörum vegna mögulega óeðlilegrar verðlagningar á ökutækjatrygginum, gríðarlegrar söfnunar í tjónasjóði og mikils hagnaðar sem skilaði ekki hagstæðari iðgjöldum til neytenda. Seðlabankinn fer m.a. með neytendagæslu á vátryggingamarkaði. Eftirlit Seðlabankans með verðlagningu á bílatryggingum er mjög mikilvægt þar sem vátryggingamarkaðurinn er fákeppnismarkaður með miklar aðgangshindranir. Í hópi skaðatrygginga vega ökutækjatryggingar þyngst. Ökutækjatryggingar eru lögboðnar og mynda stóran hluta útgjaldaliða á heimilum landsmanna. Því er afar brýnt fyrir neytendur að sem virkust samkeppni ríki á markaðnum.
Seðlabankinn hefur ekki brugðist við erindi FÍB blaðsins að öðru leyti en því að fjölmiðlafulltrúi bankans svaraði ítrekun frá FÍB í vikunni með því að segja að erindi FÍB væri í skoðun hjá bankanum.