Samningur vegna tvöföldun Reykjanesbrautar
Vegagerðin og Hafnarfjarðarbær hafa undirritað samning um kostnaðarskiptingu vegna framkvæmda við tvöföldun Reykjanesbrautar milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns að því er fram kemur í tilkynningu.
Framkvæmdin er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, HS Veitna, Mílu, Orkufjarskipta, Ljósleiðarans, Carbfix og Veitna. Stefnt er að því að verkinu verði að fullu lokið í lok júní 2026.
Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 1. júní síðastliðinn fyrirliggjandi samning þar sem kostnaðarhlutdeild Hafnarfjarðarbæjar í öllum kostnaði verksins er um 10,3%.
„Síðasti áfangi tvöföldunar Reykjanesbrautar í Hafnarfirði er í sjónmáli og er það mikið fagnaðarefni. Við höfum lengi beðið eftir þessari stund enda Reykjanesbrautin ein fjölfarnasta braut landsins og framkvæmdin mikilvægur innviður í uppbyggingu samgöngumannvirkja og eflingu samgangna í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu öllu,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar eftir undirritunina.
Vegagerðin og ÍAV undirrituðu verksamning um tvöföldun Reykjanesbrautar milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns ásamt aðliggjandi hliðarvegum þann 17. maí síðastliðinn. Undirbúningur er hafinn og framkvæmdir hefjast síðsumars. F
Framkvæmdin felur í sér lagningu Reykjanesbrautar á um 5,6 km kafla og inni í verkinu er einnig bygging brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi. Á Reykjanesbraut verða gerð mislæg gatnamót við Rauðamel en þar er að finna nýtt framtíðar byggingarsvæði Hafnarfjarðarbæjar.
Mislæg gatnamót við Straumsvík verða stækkuð og bætt við tengingu að iðnaðarsvæði Hafnarfjarðar við Álhellu. Einnig verða gerðir eftirlitsstaðir við Reykjanesbraut og stofnstígur fyrir gangandi og hjólandi milli Hraunavíkur og Straums ásamt tengingu við Straumsvík.