Sannkallaður James Bond bíll

The image “http://www.fib.is/myndir/AstonMartinnyr.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.   The image “http://www.fib.is/myndir/AstonMartinV8Vantage.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Aston Martin V8 Vantage. Grái bíllinn er nýja gerðin en sú græna er eldri.
Aston Martin frumsýndi á bílasýningunni í New York nýlega hinn nýja V8 Vantage sem sportbílaáhugafólk hefur beðið með nokkurri eftirvæntingu. Þetta er minni bíll heldur en Aston Martin hefur lengstum smíðað - minni - en aflmeiri en Aston Martin bíllinn sem James Bond ók á í myndinni Goldfinger á ofanverðum sjöunda áratugi 20. aldar. James Bond nútímans væri svosem ekki síður sæmdur af þessum nýja Aston Martin.
V8 Vantage er áhugamál núverandi forstjóra Aston Martin; Ulrich Bez, sem áður starfaði hjá Porsche. Hann vonast til að þessi nýi „Mini“-Aston, muni veita Porsche 911 harða samkeppni þótt hann verði um 40 þúsund evrum dýrari en Porsche 911. Verðmunurinn liggur að sögn Aston Martin-manna í meiri íburði og búnaði.
V8 Vantage er eins og Aston Martin DB9 byggður á VH-botnplötunni sem á að verða undirstaða allra Aston Martin bílgerða í nánustu framtíð. Vélin í V8 Vantage er 4,3 lítra, 385 ha. Við hana er svo sex gíra handskiptur gírkassi.
Þess má svo að lokum geta að gerðarheitið DB sem oftast eru notuð á Aston Martin bíla er að rekja til mannsnafnsins David Brown, en dráttarvélar með því nafni voru algengar í sveitum Íslands á árum áður. David Brown traktorarnir voru einmitt framleiddir af sama fyrirtæki og átti og rak Aston Martin bílaverksmiðjuna í Bretlandi.