Sáttmáli hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra
Sáttmáli um gagnkvæman skilning atvinnubílstjóra og hjólreiðafólks í umferðinni hefur verið gerður. Markmið sáttmálans er að auka gagnkvæman skilning og koma í veg fyrir slys, því mikilvægast af öllu er að tryggja öryggi allra vegfarenda.
Samhliða fjölgun hjólreiðafólks undanfarin ár hefur hjólreiðaslysum einnig fjölgað, svo þörfin fyrir sátt og samlyndi ólíkra hópa í umferðinni hefur aldrei verið brýnni. Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra eins og t.d. um blinda svæði bílstjórans og hættuna fyrir hjólreiðafólk að fara yfir gatnamót.
Sáttmálinn var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar og Siggi danski atvinnubílstjóri kom einnig að undirbúningi hans .
Hugmyndin að sáttmála hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra kviknaði kjölfar kynningar Maríu Agnar Guðmundsdóttur hjólreiðakonu og Svavars Svavarssonar ökukennara um gagnkvæman skilning á ráðstefnu Hjólafærni, Hjólað til framtíðar, sem haldin var á Seltjarnarnesi í september 2018.
María Ögn Guðmundsdóttir hjá Hjólaþjálfun, Siggi danski fulltrúi atvinnubílstjóra, Árni Friðleifsson lögreglumaður og Kristinn J. Eysteinsson sérfræðingur hjá Reykjavíkurborg eru talsmenn sáttmálans.