Schumacher að hætta?

http://www.fib.is/myndir/Michael-Schumacher.jpg
Michael Schumacher, sjöfaldur sigurvegari í Formúlu 1.


Formúluofurhetjan Michael Schumacher er hugsanlega að hætta keppni að sögn dagblaðsins Bild og fleiri þýskra fjölmiðla í dag. Fjölmiðlafulltrúi Schumachers vill hvorki játa þessu né neita en segir við Der Spiegel að Schumacher sjálfur muni svara spurningunni á sunnudaginn eftir ítölsku Formúlukeppnina á Monzabrautinni. Talsvert hefur verið spáð í framtíð Schumachers síðan keppnistímabili síðasta árs lauk, en úrslitin þá voru Ferrariliðinu nokkur vonbrigði.

Michael Schumacher er öflugasti Formúlu eitt ökumaður allra tíma. Hann er nú 37 ára gamall og hefur keppt í Formúlu eitt í 15 ár og sjö sinnum sigrað, sem er oftar oftar en nokkur annar hefur áður gert. Hann sigraði tvisvar sinnum – 1994 og 1995 -  meðan hann keppti fyrir Benetton en hjá Ferrari sigraði hann fimm sinnum í röð en þeirri sigurgöngu lauk 2005, Ferrariliðinu til sárra vonbrigða.

Ef hann dregur sig í hlé nú, er óhætt að segja að maðurinn hættir á hátindinum í stað þess að eiga ef til vill eftir að dragast smám saman aftur úr síðarmeir. Önnur ástæða sem gæti haft áhrif á ákvörðun hans um að hætta nú er sú að tæknistjóri Formúluliðs Ferrari, Ross Brawn, persónulegur vinur Schumachers hefur tilkynnt verði ekki meðal liðsmanna Ferrari á næsta keppnistímabili.

Nú eru fjórar lotur eftir af keppnistímabilinu og Schumacher gæti vissulega enn staðið uppi sem sigurvegari þegar tímabilinu lýkur. Til þess þarf hann þó að draga Fernando Alonso uppi sem hefur forystuna eins og er með 12 stiga forskoti á Schumacher.