Schumacher aftur í Formúluna?
Orðrómurinn um að Michael Schumacher sigursælasti Formúluökumaður allra tíma ætli að hefja nýjan keppnisferil verður stöðugt sterkari. Hann hefur ekki endurnýjað ráðgjafasamning sinn við sitt gamla lið – Ferrari og BBC og Daily telegraph í Bretlandi segja að hann eigi nú í viðræðum við Mercedes Benz um eins árs samning sem ökumaður á næsta keppnistímabili.
Litlu munaði reyndar að Schumacher, hinn sjöfaldi heimsmeistari Formúlunnar, settist á ný undir stýri Ferrari Formúlubíls sl. sumar og leysti Felipe Massa af, sem hafði neyðst til að taka sér hlé vegna meiðsla. Af þessu gat þó ekki orðið vegna hálsmeiðsla sem Schumacher hafði orðið sér úti um í óhappi á mótorhjóli.
Daily Telegraph segir í frétt sinni af málinu að Mercedes Benz sem nú hefur keypt keppnisliðið Brawn GP og skyndilegt brotthvarf Bretans og núverandi heimsmeistara, Jenson Buttons yfir til McLaren, hafi ýtt undir gamlan draum Benz manna um að setja saman alþýskt bílstjóralið með þeim Schumacher og Nico Rosberg (sem reyndar er hálf-finnskur) innanborðs.
Í þessum bollaleggingum öllum vitna fréttamenn til þess að á sínum tíma var það Mercedes sem tók ungan og efnilegan Þjóðverja, Michael Schumacher að nafni upp á sína arma og kom honum í ökuskóla fyir formúlulærlinga. Hjá Mercedes kynntist Schumacher tæknisnillingnum og Formúlubílahönnuðinum Ross Brawn sem talinn er eiga mikinn þátt í sjö heimsmeistaratitlum hans hjá Benetton og Ferrari.