Schumacher ekki lengur í dái
Michel Schumacher, hinn sjöfaldi heimsmeistari í Formúlu 1 kappakstrinum er samkvæmt fréttum í morgun vaknaður úr dái eftir skíðaslysið sem varð fyrir hálfu ári. Hann er ekki lengur á sjúkrahúsi því í Grenoble, sem hann hefur verið á eftir slysið. Ekki er vitað hvar hann dvelur nú né hvernig heilsa hans er. Engar frekari upplýsingar hafa fengist um það né hvenær hann vaknaði úr dáinu eða hvar hann er niðurkominn að öðru leyti en því að hann sé nú á endurhæfingarstofnun í Sviss.
Læknar og starfsfólk sjúkrahússins í Grenoble hafa ekkert sagt fjölmiðlum um bata og ástand Schumachers, né hvenær hann fékk að yfirgefa spítalann, en fjölskylda hans hefur sent fjölmiðlum tilkynningu þar sem m.a. segir: „Við viljum þakka öllum þeim mikla fjölda fólks sem staðið hefur með okkur í gegn um þetta erfiðleikatímabil, öllum læknum og hjúkrunarfólki sem annast hefur hann og sjúkraflutningafólkinu sem kom honum til hjálpar.“.
Michael Schumacher hafði hætt keppni eftir sinn langa og sigursæla feril sem Formúlu 1 ökumaður þegar slysið varð undir lok síðasta árs. Hann var mikill áhugamaður um umferðaröryggi og hugðist stuðla að framgangi umferðaröryggis í framtíðinni. Milli hans og FÍB var komið á samband um að stefna að svonefndri núllausn sem fólgin er í því að útrýma banaslysum úr umferðinni. Til umræðu var að Schumacher sækti Ísland heim af því tilefni en hið hryggilega skíðaslys sem hann varð fyrir, kom í veg fyrir þær fyrirætlanir. Á myndinni sjást þeir Michael Schumacher og Steinþór Jónsson formaður FÍB. Hún var tekin á fundi sem þeir áttu um þessi mál fyrir rúmu ári.