Schumacher ríkasti Formúlukappinn
Breska blaðið Sunday Times hefur birt árlegan lista sinn yfir ríkasta fólk Bretlands og þeirra sem sækja allar eða hluta tekna sinna til Bretlands. Michael Schumacher er næst ríkasti íþróttamaðurinn á eftir golfleikaranum Tiger Woods og sá ríkasti í hópi kappakstursmanna.
Schumacher á að baki sjö sigra í Formúlu 1 og hefur á glæsilegum ferli sínum náð að auðgast nokkuð þokkalega. Sunday Times metur eignir hans í löndum og lausum aurum á rúmlega 133,2 milljarða ísl. kr. Til samanburðar þá metur það eignir ríkasta íþróttamanns heims; Tiger Woods, á rúma 140,5 milljarða króna.
En peningar og auður er ekki allt og miðað við einkalíf Tiger Woods þá er ekki beinlínis hægt að sjá að hann sé farsælli þar en Schumacher, þótt auðugri sé. En þar með er auðvitað ekki sagt að Tiger Woods hljóti að vera ógurlega óhamingjusamur því að hvað sagði ekki franska skáldkonan og metsöluhöfundurinn Françoise Sagan? „Það er ekki hægt að kaupa hamingjuna fyrir peninga, en ég vil miklu heldur gráta í aftursætinu á Rolls Royce en í aftasta sætinu í strætisvagninum.“
En þótt Michael Schumacher hafi gert það gott í Formúlunni þá er auður hans lítilræði samanborið við auð eiganda Formúlunar sem er fyrrverandi bílasali; Bernie Eccelstone að nafni. Auður hans er metinn á tæpa 548 milljarða ísl. kr. Shumacher er þó talsvert stöndugri en keppinautar hans þeir Fernando Alonso og Kimi Räikkönen. Auður þeirra hvors um sig er metinn á rúmlega 18 milljarða. Þeir Lewis Hamilton og Jenson Button eru síðan hálfdrættingar á við þá Alonso og Räikkönen.