Sendibíll ársins í Evrópu 2012
Renault Kangoo Z.E. rafbíll hefur verið kjörinn sendibíll ársins í Evrópu 2012 af dómnefnd 22 bílablaðamanna sem sérhæfðir eru í flutningabílum. Rafbíllinn hlaut 104 stig af 168 mögulegum sem vissulega telst sannfærandi sigur. Áður hafði bíllinn hlotið sama titil í Danmörku.
Uppgefið drægi Renault Kangoo Z.E. á rafhleðslunni er 170 km og hámarkshraði er 135 km/t. Gera má þó ráð fyrir því að drægið minnki þegar kalt er í veðri þar sem kuldar rýra afköst geymanna. Ekki er hægt að skipta út rafhlöðupakkanum í bílnum á augnabliki eins og mögulegt er í fólksbílnum Renault Fluence ZE sem nú er hægt að kaupa og/eða taka á leigu í Danmörku. Þann bíl getur fólk keyrt inn á sérstakar geymaskiptistöðvar og fengið tóman rafgeymapakkanum skipt út fyrir fullhlaðinn. Skiptin taka aðeins augnablik, eða lítið lengri tíma en tekur að fylla á tankinn á venjulegum, fólksbíl.