Sendiferðabíll ársins 2006 í Danmörku
14.11.2005
Á morgun og miðvikudag fer fram atkvæðagreiðsla í Danmörku um hvaða bíll verður sendiferðabíll ársins í Danmörku 2006. Þeir sem atkvæði greiða eru 12 bílablaðamenn sem sérhæfðir eru í að fjalla um sendi-, vöru-, og fólksflutningabíla. Tveir af blaðamönnunum eru frá Motor, félagsblaði FDM sem eru systursamtök FÍB.
Þetta verður í áttunda skipti sem sendiferðabíll ársins er valinn í Danmörku og eru að þessu sinni 15 bílar í lokavalinu. Bílarnir eru af mjög fjölbreyttu tagi og endurspegla sérstæðar skattareglur sem gilda um bíla í landinu. Hægt er að fá mjög margar gerðir bíla, einkum jeppa og fjölnotabíla, skráðar sem sendiferðabíla á gulum númerum, bíla sem upphaflega eru ætlaðir til fólksflutninga en búið að taka úr öll farþegasæti nema framsætið og setja upp skilrúm fyrir aftan ökumanns- og framsæti. Skráningargjöld í Danmörku eru miklu lægri af bílum á gulum númerum en venjulegum hvítum.
Þeir 15 bílar sem keppa um titilinn sendiferðabíll ársins 2006 í Danmörku eru þessir:
Fiat Doblo
Honda FR-V
Hyundai Matrix diesel
Iveco Daily HPI AGile
Kia Sportage
LDV Maxus
Lexus RX 400h
Mazda 5
Mitsubishi Grandis diesel
Opel Zafira Flexivan
Seat Toledo
Subaru Forester 2,5 Turbo
Suzuki Grand Vitara
Toyota Corolla Sportsvan 2.2 D-4D
VW Golf Plus