Sérstæður Hyundai pallbíll
Hyundai frá Kóreu hefur komið á óvart á bílasýningunni í Detroit sem nú stendur sem hæst. Það hafa þeir gert með nýjum litlum pallbíl (á bandaríska vísu) sem er um margt ólíkur hinum dæmigerðu og eilíft vinsælu bandarísku pallbílum eins og Fort F150. Þessi nýi pallbíll er enn á hugmyndarstigi. Hann nefnist Santa Crus og á að höfða til ungra Bandaríkjamanna en það er sá þjóðfélagshópur í USA sem einna síst er líklegur til að fá sér pallbíl.
Santa Cruz pallbíllinn er fimm manna bíll á stærð við venjulegan fimm manna millistærðarbíl. Það þýðir að pallurinn er talsvert minni um sig en á t.d. Ford F150. Til að ráða bót á því er hægt að draga út eins konar skúffu sem þá lengir pallinn. Vélin er svipuð og í millistærðarfólksbíl þannig að í akstri á þessi bíll að vera jafn lipur í borgarumferð eins og hver annar fólksbíll (væntanlega með pallframlenginguna inndregna). En þegar kemur að því að skreppa í helgarferð út í sveit, er nýtanleikinn svipaður og hjá hefðbundnum pallbíl.
Vélin í Santa Cruz er 190 ha. 2ja lítra túrbínudísilvél sem eyðir um 6 lítrum á hundraðið. Það ætti að höfða til hins umhverfis-meðvitaða unga Bandaríkjamanns, enda er það verulega minni eyðsla en hjá bandarískum pallbílum að F150-stærð slíkra bíla. Þá er hann fjórhjóladrifinn eins og Hyundai Tuscon jepplingurinn.
Húsið á Santa Cruz er fimm manna sem fyrr segir og fjögurra dyra og eru afturhurðirnar á aftanverðum hurðalömum og opnast þannig fram á við (sjálfsmoroðsdyr eins og það kallast í USA).
Hyundai Santa Cruz verður sýndur á öllum helstu bílasýningum Bandaríkjanna á þessu ári til að kanna viðtökur sýningargesta og ákveða síðan hvort, hvenær og hvað mikið eigi að framleiða af bílnum. Hann er nánast tilbúinn til framleiðslu og fjöldaframleiðsla er sögð geta hafist innan þriggja ára en ekki fjögurra eins og algengast er.