Sérstakt skilagjald á eyðslufreka bíla í Bandaríkjunum
Sérstakt skilagjald á gamla bensínháka er í uppsiglingu í Bandaríkjunum, svipað og gert hefur verið í Þýskalandi, Frakklandi og víðar í Evrópu.
Fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykkti í gær sérstakt skilagjald, allt að 4.500 dollara, fyrir gamla bensínháka. Gjaldið á að ganga upp í kaup á nýjum sparneytnum bíl.
Frumvarpið sem verður að lögum samþykki öldungadeildin það líka, var kallað „cash for clunkers,“ en tilgangurinn er að losna við gamla eyðslufreka bíla úr umferð - bíla sem að meðaltali komast fórar mílur eða skemmra á hverju galloni af bensíni (gallon er rétt tæpir fjórir lítrar og mílan tæplega 1,6 km). Á öðrum þræði er tilgangurinn einnig sá að örva bílaframleiðsluna í Bandaríkjunum og viðhalda þannig störfum eða jafnvel fjölga þeim.
Ef svo nýi bíllinn sem keyptur er í stað þess gamla eyðir beníni sem svarar til þess að hann kemst að meðaltali fjórar mílur eða meir á hverju galloni af bensíni fæst 3.500 dollara meðgjöf með honum. Meðgjöfin fer stigvaxandi eftir því sem nýi bíllinn er sparneytnari. Hæsta meðgjöfin, 4.500 dollarar fæst ef keyptur er nýr bíl sem kemst 10 mílur á hverju galloni af bensíni.
Þetta nýja „cash for clunkers" lagafrumvarp sem hér er greint frá, mun sem lög gilda einungis um hefðbundna fólksbíla. Þau ná ekki til pallbíla né jeppa. Sérstök lög um þá bíla munu vera í smíðum. Þótt frumvarpinu sé á öðrum þræði ætlað að örva bílaframleiðsluna í Bandaríkjunum sjálfum þá er það alls ekki einskorðað við bandarísku bílamerkin (Chrysler, Ford, GM og undirmerki þeirra) eingöngu, heldur alla nýja bíla sem fást í Bandaríkjunum.
Það þótti nefnilega óvinnandi vegur að skilgreina það hvað telst vera ekta bandarískur bíll og hvað ekki. Fjöldi erlendra bílaframleiðenda rekur bílaverksmiðjur í Bandaríkjunum, þar er einnig fjöldi íhlutaframleiðenda sem framleiðir íhluti í bíla sem koma hvaðanæva úr heiminum. Fyrirbærið bíll er fjarri því að vera einhverskonar þjóðlegt fyrirbæri lengur, heldur alþjóðlegt.