Sérstök smurolía á dísilbíla með öragnasíum
11.03.2005
Castrol hefur í samvinnu við BMW þróað sérstaka mótorolíu fyrir dísilvélar búnar öragnasíum. Olían nefnist SLX LL04 en þótt hún sé þróuð sérstaklega fyrir dísilvélarnar hentar hún líka á BMW bensínvélar.
BMW hefur verið að þróa nýjar dísilvélar undanfarin ár og mánuði sem allar verða með öragnasíum. Samhliða þeirri vinnu hefur verið unnið að sérstakri smurolíu fyrir vélarnar í samvinnu við Castrol og er þessi nýja olía, Castrol SLX LL04 afrakstur þeirrar samvinnu. Nýju dísilvélarnar koma fyrst í 5 línunni, síðan 7 línunni og loks í 3 og 1 línunni. SLX LL04 er fyrsta olíugerðin sem uppfyllir BMW staðal sem nefndur er BMW Longlife-04 en hann nær til bæði bensín- og dísilvéla.
Öragnasíur eru viðkvæmar fyrir hverskonar aukaefnum eins og málm- og brennisteinssamböndum bæði í dísilolíunni og smurolíunni. Nýja Castrol smurolían er mjög hrein og laus við slík aukaefni. Það þýðir að óvenju lítið af olíunni nær að brenna og mynda brennisteinsmengaðar sótagnir í strokkunum sem síðan fara með útblæstrinum út í öragnasíurnar og skemma þær.