Sex hafa látist í umferðarslysum það sem af er árinu
Einn lést í umferðaslysi sem varð á Suðurlandsvegi við Sólheimajökul nærri Pétursey í gærkvöldi. Það sem af er árinu hafa sex manns látist í fjórum umferðarslysum og hafa aldrei áður látist fleiri í umferðarslysum í janúar. Skár Samgöngustofu ná aftur til ársins 1973. Fimm létust í umferðarslysum í janúarmánuði árið 1977.
Fyrir banaslysið í gærkvöldi létust hjón í slysi á Grindavíkurvegi 5. janúar. Tveir létust í slysi á þjóðvegi 1 skammt vestan við Skaftafell 12. janúar og einn lést í umferðarslysi á Vesturlandsvegi 16. janúar
Árið 2023 létust átta manns í umferðinni hér á landi. Það er Umferðarsvið Rannsóknarnefndar samgönguslysla (RNSA) sem annast rannsókn banaslysa og alvarlegra umferðaslysa hér á landi.
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, harmar fjölda þeirra banaslysa sem orðið hafa í umferðinni í janúar. Í samtali við mbl.is telur hún tildrög slysanna hafa verið ólík og því sé mikilvægt að finna samnefnara til að varpa ljósi á hvað það er sem veldur.
Bergþóra segir mikil vonbrigði að fá svo stóra slysahrinu á jafn skömmum tíma, sérstaklega eftir góðan árangur síðustu tvö ár þar sem banaslysum hefur fækkað.
„Það hefur náðst verulegur árangur með samstilltu átaki í gegnum umferðaröryggisráð. Það er bæði vegakerfið, upplýsingar til ökumanna, ökuskólinn, umferðaröryggisaðgerðir, löggæsla og ýmislegt annað sem hefur áhrif, af því að þetta er miklu flóknara mál heldur en bara vegurinn,“ segir Bergþóra og bætir við:
„Við vorum að horfa til þess að við værum að ná árangri sem þjóðfélag. Ekki bara Vegagerðin, heldur við sem komum að þessum málum, en svo kemur þetta hrikalega bakslag og við þurfum náttúrulega að setjast yfir það og sjá hvað er þetta eiginlega sem er að valda.“
Óskað eftir fundi til að ræða leiðir til úrbóta
Stopp – hingað og ekki lengra er nafn hóps sem berst fyrir umbótum á Reykjanesbraut hefur óskað eftir fundi með Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Vegagerðinni, Samgöngustofu, Samtökum ferðaþjónustunnar og ríkislögreglustjóra til að ræða leiðir til úrbóta eins fljótt og kostur er..
Hópurinn var stofnaður fyrir nokkrum árum og hefur það að meginmarkmiði að bæta umferðaröryggi á þessum fjölfarnasta vegi landsins
Í 2. tbl. 2023 af FÍB blaðinu var til umfjöllunar umferðaröryggi á vegum hér á landi og viðtal tekið við rannsóknarstjóra á umferðarsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa. Viðtalið má nálgast hér.