Sex hjóla tryllitæki
28.10.2005
Covini C6W
Á bílasýningunni í Genf haustið 2004 vakti ítalska sportbílasmíðafyrirtækið Covini Engineering heilmikla athygli með sex hjóla sportbílinn C6W sem var frumgerð og hugmyndarbíll. Ekkert var þá látið uppi um hvort þessi bíll yrði nokkru sinni framleiddur að nokkru marki.
En þann 24. nóvember verður opnuð mikil sýning á aukahlutum og sérsmíðuðum bílum í Essen í Ruhrhéraðinu. Þar verður aðal sýningargripurinn einmitt þessi sex hjóla bíll sem brátt verður fáanlegur, því Covini smíðar upp í pantanir þeirra sem hafa efni á.
Fyrirmyndin að yfirbyggingunni er Formúlu 1 bíllinn Tyrell P34 frá 1976. Markmiðið með tvöföldu framhjólasetti er að fá betra hliðargrip eða veggrip í beygjum og öflugri hemlun. Yfirbyggingin er úr plasti og koltrefjaefnum sem klædd eru á burðargrind úr stálrörum. Vélin er 4,2 lítra V8 vél frá Audi. Hún er 380 hestöfl og hámarkshraðinn er um 300 km/klst.
Framhjólin eru af stærð 205/45-15 tommu, en afturhjólin eru, 20 tommu með hjólbörðum að stærð 345/25.