Shell hækkar bensínið um 2,50 krónur á lítra

http://www.fib.is/myndir/Skeljungurlogo.jpg
Fyrir hádegi var tilkynnt á heimasíðu Skeljungs að eldsneytisverð á Shell bensínstöðvum hefði hækkað.  Þjónustuverðið fyrir bensínið fer úr 131 krónu á lítra í 133,50 krónur á lítra.  Algengasta sjálfsafgreiðsluverð er 5 krónum  ódýrara eða 128,50 krónur á lítra.  Dísillítrinn kostar eftir hækkun 131,80 krónur með þjónustu og í sjálfsafgreiðslu 126,80 krónur.

Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur verið að hækka í þessari viku en ekki það mikið að búast mætti við 2,50 króna hækkun á lítra.  Olíufélögin hlupu á sig þegar þau hækkuðu fyrir liðna helgi eftir að hafa svikið neytendur um eðlilega lækkun 23. ágúst  sl. en þá var lítraverðið bara lækkað um 1 krónu þegar undirliggjandi var 2,50 króna lækkun á lítra.  

Til samanburðar er áhugavert að bera saman verð til neytenda á bensíni síðustu 2 mánuði þegar kostnaðarverð á heimsmarkaði  á hvern lítra var sambærilegt við það sem það er um þessar mundir.  Í kringum 10. júlí var kostnaðarverðið um 36,50 krónur á lítra en útsöluverðið með þjónustu var 131,30 krónur.  Eftir miðjan ágúst fór kostnaðarverðið í um 37 krónur á lítra og þá hækkuðu olíufélögin þjónustuverðið á bensíni í 132 krónur. 

Síðustu 2 daga hefur kostnaðarverðið verið 36,50 krónur á lítra en Skeljungur hækkar í 133,50 krónur með þjónustu.  Hvernig útskýra Skeljungsmenn þessa verðþróun?