Shell og N1 elta hækkunina hjá Olís

Shell og N1 hafa hækkað verð á eldsneyti um 2 krónur á lítra líkt og Olís.  Sama á við um sjálfsafgreiðslu dótturfélög Olís og N1, ÓB og Egó þar er búið að hækka elsneytið um 2 krónur á lítra.  Þjónustuverðið á bensíni er komið í 133 krónur á lítra og dísillítrinn kostar 132 krónur.  Sjálfsafgreiðsluverðið á þjónustustöðvum er 5 krónum undir þjónustuverðinu á lítra. Hjá ÓB og Egó er bensínlítrinn á 126.40 krónur og dísilolían á 125.40 krónur.

Atlantsolía og Orkan sem er dótturfélag Skeljungs hafa ekki hækkað eldsneytið.  Hjá Orkunni kostar lítrinn af bensíni 124,30 krónur og dísilolían 123.30 krónur.  Bensínið kostar 124,40 krónur hjá Atlantsolíu og dísilolían kostar 123,40 krónur.

Ekki er hægt að réttlæta hækkanir gömlu olíufélaganna með því að verið sé að mæta hækkun á kostnaðarverði eldsneytis.  Hlutfallsleg álagning á bensín og dísilolíu hefur verið að aukast hjá íslensku olíufélögunum í sumar.  Þessar nýjustu hækkanir eru vísbending um að olíufélögin séu ekki hætt á þeirri braut.