Síðasti gamaldags Landróverinn
Síðasti gamaldags Landróverinn – Land Rover Defender - rann af færibandinu í Solihull verksmiðjunni í Bretlandi á föstudaginn var, þann 29. janúar. Þar með lauk lengstu samfelldu – 68 ára - fjöldaframleiðslusögu eins sama bílsins. Síðasti Landróverinn á föstudaginn fór ekki á götuna heldur var ekið beint á safn.
Hinn sígildi Land Rover hefur ekki öll 68 árin sem framleiðslan stóð, heitið Defender. Framleiðslan hófst árið 1948, þremur árum eftir lok heimsstyrjaldarinnar. Skortur var á stáli í Bretlandi og er það ekki síst ástæða þess að menn ákváðu að smíða yfirbyggingar bílana úr álplötum sem upphaflega átti að nýta í herflugvélar, þar á meðal Spitfire orustuflugvélarnar. Og þannig var Landróverinn byggður alla tíð og var alla tíð auðþekkjanlegur enda tók útlitið aldrei neinum grundvallarbreytingum. Allar þær rúmlega tvær milljónir Landróvera sem byggðar hafa verið eru auðþekkjanlegar, frá fyrstu gerðinni til hinnar síðustu.
Lengi hefur það verið ljóst að framleiðslunni á Defender yrði hætt en lítið var gefið upp um það í lokahófinu sl. föstudag hvað skuli taka við nú. Framleiðslan hefur lengi þótt afar óhagkvæm vegna þess að hönnunin krafðist of mikillar „handavinnu.“ Framleiðsla hvers eintaks tók 56 klst. sem er um það bil fimm sinnum lengri framleiðslutími heldur en algengast er. Bíllinn var þannig einfaldlega of dýr samanborið við sambærileg farartæki.