Sífellt fleiri bílar með ESP®
Bílum sem búnir eru ESP stöðugleikabúnaði fjölgaði enn á síðasta ári samkvæmt könnun sem tæknifyrirtækið Bosch, helsti framleiðandi ESP búnaðar (electronic stability program) hefur látið gera. 42 prósent allra nýskráðra bíla í Evrópu á fyrri helmingi síðasta árs voru með búnaðinum. Mest aukning varð á Spáni en þar hækkaði hlutfall nýskráðra bíla með ESP úr 41 í 49 prósent. Næst mest fjölgun varð í Bretlandi. Þar nam hún 6 prósentum og var hlutfall ESP-búinna bíla 42 prósent. Hlutfallið jókst í Þýskalandi úr 72 í 75 prósent á fyrstu sex mánuðum síðasta árs miðað við sama tíma árið á undan. ESP er talið vera mesta slysavörn sem komið hefur fram í bílum síðan öryggisbeltin komu fram á sjónarsviðið. Búnaðurinn grípur inn í þegar bíllinn skrensar og kemur í veg fyrir að ökumaður missi vald á akstrinum.
Líkt og í samskonar könnunum sem áður hafa verið gerðar velur einungis lítill hluti bílakaupenda að taka ESP sem aukabúnað í nýja bílnum. Ástæða þess að bílum með ESP fjölgar er því fyrst og fremst sú að stöðugt fleiri nýir millistærðar- og stærri fólksbílar sem seldir eru utan Þýskalands hafa ESP sem staðalbúnað.
Smábílarnir sem seldir eru í Evrópu eru enn sem komið er að stórum hluta án ESP sem staðalbúnaðar, meira að segja aflmiklir smábílar og í sumum þeirra er ESP ekki einu sinni fáanlegt sem aukabúnaður. Herbert Hemming er framkvæmdastjóri þeirrar deildar hjá Bosch sem m.a. framleiðir ESP kerfin. Hann segir að á þessu máli verði að taka því að smábílarnir eru oftar en ekki í höndum ungs fólks og ungra fjölskyldna sem skortir akstursreynslu. Þessvegna sé það þeim mun nauðsynlegra að setja ESP kerfi í einmitt smábílana eða að minnsta kosti að það sé fáanlegt í þá sem aukabúnaður.
Fjöldi kannana á virkni og áhrifum ESP kerfa í bílum sýna svart á hvítu hversu mikilvægt öryggistæki er um að ræða. Þessar niðurstöður hafa leitt til þess að mikilvæg samtök og stofnanir eins og EuroNCAP bílaöryggisstofnunin, GDV – samband vátryggjenda í Þýskalandi, Thatcham, slysarannsóknastofnun bresku tryggingafélaganna og Folksam tryggingastofnunin í Svíþjóð krefjast þess að ESP verði framvegis staðalbúnaður í öllum nýjum fólksbílum, stórum sem smáum. Þessir aðilar gagnrýna bílaframleiðendur harðlega fyrir að setja fjölda bílagerða – einkum smábíla - á markað án þess að þeir séu búnir ESP eða þá að það sé fáanlegt einvörðungu sem aukabúnaður.
Bandaríkjamenn eru komnir skrefinu lengra en Evrópumenn í ESP málum því að umferðarráð þeirra; NHTSA eða The National Highway Traffic Safety Administration hefur lagt til að lög verði sett um að ESP® verði orðið skyldubúnaður í öllum nýjum bílum fyrir árslok 2011.