Sífellt fleiri rafbílar á vegum í Evrópu
Þegar tölur er teknar saman fyrir árið 2022 kemur í ljós að rafbílum á vegum í Evrópu fjölgar jafnt og þétt. Ívilnanir stjórnvalda og sívaxandi tegundaúrval hefur orðið til þess að margir bíleigendur hafa skipt út brunavélinni.
Noregur sker sig nokkuð úr því þar í landi eru rafbílar með 16% hlutdeild í bílaflotanum. Það kemur ekki á óvart því norsk stjórnvöld hafa beitt sér fyrir herferð í þágu rabíla og vega þar þyngst fjárhagslegar ívilnanir. Í Ósló er hlutdeild rafbíla nú 33,2 prósent en mun minni á landsbyggðinni, eða um rúm 4%. Um hálf milljón rafbíla er nú á götum í Noregi.
Ísland kemur í öðru sæti með 4,6% og Holland þar á eftir með 2,8%. Í næstu sætum kemur Danmörk með 2,4% og Svíþjóð 2,2%. Nokkur lönd í Suður- og Austur-Evrópu eru eftirbátar í rafbílaþróuninni. Þessi lönd eru einnig með elsta bílaflota Evrópu
Sem dæmi má nefna að á sænska markaðnum voru rafbílar tæplega einn af hverjum þremur nýskráðum bílum á síðasta ári. En miðað við heildarbílaflotann eru rafbílar enn aðeins með 2,2 prósent þar í landi.