Sifurliturinn er vinsælasti bílalitur í heiminum
30.11.2005
Silfurgrár litur á einum dýrasta lúxusbílnum, Maybach.
Silfurgrátt er lang vinsælasti bílaliturinn á þessu ári, ekki bara á Íslandi heldur allsstaðar í heiminum. Nærri lætur að fjórði hver nýr bíll í heiminum á þessu ári sé silfurgrár. Þetta er niðurstaða árlegrar athugunar sem gerð er á vegum lakkframleiðandans DuPont. Hvítur er í öðru sæti, grár í því þriðja, blár í því fjórða og svartur í fimmta.
Að silfurgráa litnum undanskildum virðist bílalitasmekkur ólíkur eftir löndum og álfum. Bandaríkjamenn hafa fjölbreyttastan litasmekk og margir kjósa sterka og glaðlega liti á bíla sína. Öðru máli gegnir um Evrópubúa. Þeir kjósa flestir hlutlausari liti eins og silfurgrátt, grátt, dökkgrátt og svart á sína bíla. Japanir hafa lengi sóst eftir hvítum bílum og eitt sinn voru 70% nýrra bíla í Japan hvítir, en nú er það semsé silfurgrátt sem er vinsælast þar eins og annarsstaðar. Bandaríkjamenn og Þjóðverjar eiga það sameiginlegt að vilja ógjarnan bíla með leigubílalitum. Þannig vll ekki nokkur Þjóðverji eiga bleikan bíl og varla nokkur New York búi vill gulan.
Bílaframleiðendur leita stöðugt að nýjum litatónum á bíla sína til að auðkenna þá á markaðinum og ná til kaupenda. En það er vandasamt að hitta á eða setja af stað nýja tískubylgju í þessum efnum. Litir á bílum skipta vissulega máli því að samkvæmt litarannsókn DuPont þá segja 39 prósent bandarískra bílakaupenda að þeir hefðu fengið sér aðra bíltegund, hefði sú sem þeir keyptu ekki fengist í rétta litnum. Og litir á bílum geta skipt máli um það hversu vel þeir halda endursöluverðinu. Markaðsstjóri hjá DuPont segir sem dæmi um það að svarti liturinn sé alltaf góður litur í sölu á nýjum bílum en gangi illa í endursölu vegna þess að allar rispur, lakkskemmdir og dældir sjáist betur á svörtum bílum en flestum öðruvísi litum.
Margir bílakaupendur hafa líka skoðanir á því hvaða litur hæfir hvaða bílgerð. Silfurlitur er t.d. mjög vinsæll á dýrum fólksbílum og lúxusbílum. Rauður litur er á hinn bóginn vinsæll á sportbílum eins og Corvette og fleiri slíkum. Fólk sem fær sér smábíla og bíla sem eru óvenjulegir í útliti vill oft hafa slíka bíla í björtum litum, t.d. fólubláa og gula. Og þegar efnahagsástand er gott velur fólk gjarnan bíla í björtum og glaðlegum litum en grámóskan verður ríkjandi þegar harðnar á dalnum.
Algengasti litur á Ferrari og Corvette, eins og á myndinni, er rauður. Þeir sem kaupa bíla sem eru á enhvern hátt sérstakir í útliti, vilja gjarnan hafa þá í glaðlegum litum.