Sigur í ryðmáli
Þann 13. júní sl felldi hæstiréttur Noregs dóm í máli sem NAF höfðaði fyrir hönd félagsmanns. Málið sem snerist um misheppnaða viðgerð á ryðskemmd í bíl. Dómur þessi gæti haft visst fordæmisgildi hér á Íslandi því að íslensk neytendalöggjöf er mjög lík þeirri norsku og nánast sniðin eftir henni.
Upphaf þessa máls sem NAF hefur nú unnið á öllum þremur dómstigum í Noregi er það að bíleigandinn Bror Steiner kvartaði undan ryðskemmdum í nýlegum Mercedes bíl sínum. Söluumboðið þar sem bíllinn hafði verið keyptur tók bílinn til viðgerðar árið 2006 þar sem hann var enn í ábyrgð. Gert var við allar fjórar hurðir bílsins og skipt um skipt um skottlokið, eiganda að kostnaðarlausu.
Árið 2009 tók aftur að bera á ryðskemmdum á bílnum og óskaði eigandinn eftir því að hann yrði aftur lagaður. Því var hafnað þar sem ábyrgð framleiðanda væri útrunnin og verkstæðið hafnaði því að taka ábyrgð á viðgerðinni frá 2006. Þá leitaði eigandinn til NAF um liðsinni og höfðaði NAF mál fyrir hönd félagsmannsins sem nú hefur farið alla leið innan dómskerfisins og unnist á öllum stigum.
Stig Skjøstad, framkvæmdastjóri NAF segir hæstaréttardóminn ánægjulegan og góð tíðindi fyrir neytendur. Hann þýði það að fólk geti framvegis með árangri kvartað undan lélegum viðgerðum enda þótt hinn lögbundni ábyrgðartími sé útrunninn.