Sigurrós sigraði

Sigurrós Pétursdóttir á Toyota Yaris dísilbíl sigraði í árlegri sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu í gær. Ekinn var rúmlega 143 km hringur frá Reykjavík um Mosfellsdal, Mosfellsheiði og Grafning að Írafossi. Þaðan lá leiðin suður Grímsnes að Selfossi, Eyrarbakka og um Þrengslaveg til Reykjavíkur og endað á upphafsstað keppninnar - bensínstöð Atlantsolíu við Bíldshöfða.

Takmark keppninnar er að eyða eins litlu eldsneyti á akstursleiðinni og framast er unnt og sá ökumaður sem minnsta eldsneytinu brenndi var Sigurrós Pétursdóttir, en hún keppti á nýjum Toyota Yaris dísilbíl. Bíll Sigurrósar eyddi sem svaraði 2,63 lítrum af dísilolíu pr. 100 kílómetra.

http://www.fib.is/myndir/Sigurvegarar.jpg
Verðlaunahafar í Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu
2011, sem fram fór í gær.

Sá sem næst minnstu eyddi var Margeir Kúld Eiríksson á Volkswagen Polo með dísilvél. Hann eyddi  sem svarar 2,84 lítrum á hundraðið. Einungis örfáir millilítrar skildu í milli bíls Margeirs og Peugeot 207 bílsins í þriðja sætinu en eyðslutala Peugeot bílsins rétt læddist yfir í þriðja aukastafinn.

Segja má almennt um keppnina að árangur keppenda var ótrúlega góður sem er bæði til vitnis um hæfni ökumannanna en ekki síður um það hversu véltækni hefur fleygt hratt fram á fáum árum. Nýjustu fólksbílar eyða að jafnaði helmingi minna eldsneyti en samsvarandi bílar að stærð, afli og þyngd gerðu fyrir einungis 15 árum.

Auk þess að keppt sé um hver eyðir minnstu eldsneyti í Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu yfir heildina er þetta líka flokkakeppni, en keppnisbílarnir eru flokkaðir í fimm meginflokka eftir vélarstærð. Árangur stærstu bílanna er einnig og ekki síður athyglisverður. Sem dæmi má nefna að eyðsla stærstu og aflmestu jeppanna í keppninni reyndist furðu lítil eða frá tæpum fimm lítrum á hundraðið upp í tæpa 10 lítra.

Keppnin að þessu sinni var óvenjuleg að því leyti að lang flestir þátttökubílanna voru dísilbílar. Þeir sem ekki voru dísilknúnir voru tvíorkubílar sem ganga fyrir bensíni og rafmagni. Engir hreinræktaðir bensínbílar voru sendir til keppni að þessu sinni. Niðurstöður keppninnar í heild er að finna á PDF-skjali hér.