Sjá eftir kaupum
Einn af hverjum þremur kaupendum rafbíla í Japan sér eftir að hafa keypt sér rafbíl og getur ekki hugsað sér að fá sér slíkan bíl aftur. Þetta er meginniðurstaða vandaðrar könnunar markaðsfyrirtækisins McKinsey & Company meðal japanskra rafbílaeigenda.
Þótt þessi könnun hafi einvörðungu náð til japanskra bíleigenda má gera ráð fyrir því að viðhorfin séu ekki ósvipuð í okkar heimshluta. Það staðfesta ýmsar lauslegar kannanir af svipuðu tagi sem gerðar hafa verið. Margt bendir því til að nánasta framtíð sé ekkert mjög björt hjá rafbílunum. Sala þeirra er lítil og minnkandi og það breytist vart fyrr en drægi þeirra eykst verulega, hleðslutími styttist og verðið lækkar verulega. Með öðrum orðum að þeir verði samkeppnishæfir við hefðbundna brunahreyfilsbíla. Salan í heiminum hefur verið miklu tregari en vænst var þegar þeir voru að koma fram á sjónarsviðið hver af öðrum fyrir þetta 5-6 árum, áhugi fyrir þeim var hvað mestur og fjölmiðlaumfjöllun um þá mikil og stöðug.
Margir þeirra sem svöruðu könnun McKinsey telja að þeir hafi fengið rangar upplýsingar um rafbíla og umhverfismildi þeirra í upphafi. Þeir hafi keypt bílinn á grundvelli þessara röngu upplýsinga og hinn óánægði þriðjungur sér eftir því að hafa látið glepjast og ætlar aldrei að fá sér rafbíl aftur. Orkureikningurinn vegna bílsins sé mun hærri en lofað var í upphafi og hleðslustaðir miklu færri.
Aðrir sem þrátt fyrir það að hafa fengið rangar og misvísandi upplýsingar, eru samt ánægðir með kaupin, bílarnir dugi til daglegra nota, séu umhverfismildir og ágætir í akstri og eldsneytiskostnaðurinn mjög lágur.