Sjálfakandi Jaguar I-Pace notaðir í samgönguþjónustu Waymo
Jaguar hefur gert samstarfssamning við Waymo um þróun sjálfstýringar í rafknúna lúxussportjeppann Jaguar I-Pace sem Waymo hyggst nota í ökumannslausum almenningssamöngum.
Á næstu árum hyggst Waymo taka í notkun allt að tuttugu þúsund sjálfstýrða I-Pace sem jafnframt verða fyrstu rafknúnu lúxusbílarnir í almenningssamgöngum. Gert er ráð fyrir að þjónustan hefjist í Phoenix í Bandaríkjunum í árslok.
Prófanir á sjálfstýringarbúnaði I-Pace eru hafnar og er markmiðið að árið 2020 verði um tvö þúsund bíla floti I-Pace án ökumanns kominn í fulla notkun undir merki þjónustu Waymo sem viðskiptavinir kalla eftir með símaappi.
Áætlað er að samanlagt fari bílarnir um eina milljón ferða á dag. Markmið samstarfsverkefnisins er jafnframt að þróa í sameiningu öruggari bíla fyrir almenna umferð og auka lífsgæði fólks með því að bjóða aðgang að þjónustu sem þessari.
Waymo byggir á tækni Google og er sem stendur eina fyrirtækið í heiminum sem á bílaflota sem er heimiluð almenn umferð án ökumanns við stýrið. Bílum fyrirtækisins hefur þegar verið ekið um fimm milljónir kílómetra í tuttugu og fimm borgum Bandaríkjanna og fyrir árslok verður byrjað að bjóða upp á almenna ökuþjónustu í Phoenix án ökumanns.
Borgin verður sú fyrsta þar sem almenningur getur nýtt sér daglega samgönguþjónustu Waymo, hvort sem er til eða frá vinnu, skóla, íþróttaæfingu eða í öðrum erindagjörðum í borginni.