Sjálfbærni Vaðlaheiðarganga algert skilyrði
Á opnum fundi samgöngunefndar Alþingis komu fram skýr skilaboð frá flestum þingmönnum um að Vaðlaheiðargöng yrðu að vera sjálfbær – þ.e. að vegatollar standi undir kostnaði við gerð þeirra, rekstur og fjármögnun.
Í ljósi gagnrýni FÍB á tekjuþátt Vaðlaheiðarganga – þ.e. að göngin muni aldrei verða sjálfbær – hvöttu þingmenn til þess að Vegagerðin, Vaðlaheiðargöng ehf. og FÍB skiptust á upplýsingum um hvers vegna þessir aðilar fá niðurstöður sem stangast verulega á. Þeir fyrrnefndu telja að göngin standi undir sér, en FÍB hefur verulegar efasemdir um það. Reyndar telur FÍB að vegatollar muni aðeins standa undir helmingnum af heildarkostnaði við gerð og fjármögnun ganganna. Því muni um 10 milljarðar króna lenda á ríkissjóði – þeim sama sjóði og sagður er tómur um þessar mundir. Rétt er þó að taka fram að útgjöld ríkissjóðs munu ekki hefjast fyrr en eftir 4-5 ár ef ákveðið verður að ráðast í gangagerðina.
Á fundi samgöngunefndar kom einnig fram hjá Kristínu H. Sigurbjörnsdóttur stjórnarformanni Vaðlaheiðaranga ehf. að gangagerðin verður boðin út í heilu lagi. Það þýðir að framkvæmdin verður boðin út á evrópska efnahagssvæðinu og því ekki sjálfgefið að íslensk verktakafyrirtæki komi að henni nema sem undirverktakar að hluta. Því liggur ekkert fyrir um hvort gangagerðin hafi áhrif á atvinnustig Norðanlands, en það hefur verið eitt af megin sjónarmiðum norðanmanna fyrir nauðsyn þess að ráðast sem fyrst í framkvæmdina.