Sjálfkeyrandi leigubílar í almennri umferð
Það bendir ýmislegt til þess að leigubílstjórum heimsins gæti fækkað verulega innan fárra ára. Tæknin leysi þá af hólmi. Sex ökumannslausir leigubílar eru þegar á ferðinni í umferðinni í Singapore á vegum fyrirtækis sem kallast nuTonomy. Þeir eru að vísu ekki algerlega mannlausir því að í hverjum þeirra situr tæknimaður sem fylgist með sjálfvirkninni og er tilbúinn að grípa inn í ef eitthvað fer úrskeiðis.
Tilraunabílarnir eru að vísu ekki í hefðbundnum leiguakstri ennþá, heldur eru ,,viðskiptavinirnir” sérvalinn hópur á víð og dreif um borgina sem kallar bíla til sín gegnum app í farsímum sínum og ekur síðan með þeim á áfangastað. Sjálfir bílarnir eru sérútbúni rafbílar af tegundunum Renault Zoe og Mitsubishi i-MIEV.
Þetta er semsagt tilrauna- og þróunarverkefni sem áætlað er að ljúki á næsta ári. Þá verði búið að komast fyrir hugsanlega ágalla og gera tæknina örugga. Samkvæmt áætlunum á svo að taka mannlausu rafbílana í almenna notkun 2018.