Sjálflýsandi lögreglubílar
11.05.2005
Nú er unnið að því í Svíþjóð að gera lögreglubílana enn meira áberandi og frá næsta hausti verða nýir lögreglubílar í sænsku fánalitunum og efnin sem notuð verða eru bæði sjálflýsandi og með sterku endurskini. Markmið þessa er að auka öryggi bæði lögreglumanna og annarra vegfarenda, ekki síst þar sem slys hafa orðið á vegum og hætta er á að aðvífandi bílar aki á kyrrstæða lögreglubíla. Bæði litavalið og mynstrið á bílunum verður sett á bílana í samræmi við niðurstöður alþjóðlegra rannsókna um m.a. getu mannsaugans og hvaða liti og form það greinir best og sér lengst að. Litasamsetningar og merkingar á t.d. sjúkrabílum í Evrópusambandslöndum eru í samræmi við þessar sömu rannsóknir.
Endurskinsefnin sem notuð verða á sænsku lögreglubílana eru ný og endurkasta um tífalt meira ljósi en eldri efni gerðu. Í þeim er sjálflýsandi flúorefni sem gerir bílana enn sýnilegri í dagsbirtu en þeir væru ella.
Þar sem þessi nýju efni eru fokdýr eru þau einungis sett á nýja lögreglubíla jafnharðan og flotinn er endurnýjaður. Fyrstu sjálflýsandi bílarnir byrja að sjást í umferðinni frá næsta hausti en eftir sex ár verða allir sænskir lögreglubílar merktir á þennan hátt.
Svona verða sænskir lögreglubílar útlits.